
Alvarlegasta hungursneyð í áratugi vofir yfir
Borgarastríð hefur geisað í fimm ár í Jemen milli stjórnarhers landsins og uppreisnarsveita Húta, sem njóta stuðnings Írana. Sádi-Arabar styðja við bakið á stjórnvöldum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft varað við því að ástandið í Jemen sé orðið verulega alvarlegt. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fór í dag yfir stöðuna. Hann sagði ástandið versna stöðugt og nú stefndi í verstu hungursneyð í marga áratugi.
Frá því hefur verið greint að bandarísk stjórnvöld íhugi að setja uppreisnarmenn Húta á lista yfir hryðjuverkasveitir. Stjórnendur hjálparsamtaka hafa varað við því að þá versni ástandið til muna. Guterres nefndi þetta ekki berum orðum í dag. Hann skoraði á alla sem hefðu áhrif á gang mála í Jemen að bregðast skjótt við og afstýra yfirvofandi hörmungum. Einnig fór hann fram á að enginn gripi til aðgerða sem sköpuðu enn meiri vanda.
Guterres sagði að hluti vandans væri að fjárveitingar til hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna hefðu dregist verulega, jemenski gjaldmiðillinn væri óstöðugur og stríðandi fylkingar hefðu gert hjálparstofnunum erfitt með að sinna störfum sínum.