Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aðgerðirnar eiga að kosta allt að 70 milljarða

Atvinnuleysisbætur, lífeyrisgreiðslur og barnabætur hækka á næsta ári og nýir viðspyrnustyrkir eiga að halda fyrirtækjum á floti þar til faraldurinn er genginn yfir. Þetta er á meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í dag og eiga að kosta allt að 70 milljarða.

„Þetta sem við vorum að kynna í dag, um það bil 60-70 milljarðar, styrkir til atvinnulífs og félagslegir styrkir. Það er ákveðin óvissa um kostnað við þessar aðgerðir, við vitum ekki hversu mörg fyrirtæki munu nýta sér tekjufalls- og viðspyrnustyrki,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

„Held að þetta sé gott jafnvægi“

Hækkun atvinnuleysisbóta kostar um það bil tvo milljarða. Eftir áramót hækka bætur til atvinnuleitenda um samtals 18 þúsund, 7500 krónur umfram verðbætur. Grunnbætur verða því 307 þúsund krónur. Þá verður greidd nærri 87 þúsund króna desemberuppbót til atvinnuleitenda.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur ítrekað sagst ekki telja að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Aðspurður hvað hafi breyst segir Bjarni að hækkuninni sé sérstaklega beint að barnafjölskyldum.

„Þessar atvinnuleysisbætur sem við erum að hækka núna, þeim er beint sérstaklega að barnafjölskyldum. Ég hef alltaf lagt áherslu á að framlengja tekjutengda tímabilið. Við komum með 2,5% hækkun til að koma til móts við þessi sjónarmið, ég held að þetta sé gott jafnvægi í heildar úrræðunum,“ segir hann. 

Framlengd hlutabótaleið og viðspyrnustyrkir

Hlutabótaleiðin verður framlengd út maí og í næstu viku verður hægt að sækja um lokunar- og tekjufallsstyrki sem ríkisstjórnin hefur þegar kynnt. Bjarni Benediktsson segir að sumir þeirra rekstraraðila sem hafa þurft að loka hafi talið styrkina of lága. „Við því verður brugðist ef rétt reynist,“ segir hann. 

Viðspyrnustyrkir eiga að taka við af lokunar- og tekjufallsstyrkjum og gilda út maí á næsta ári og skiptast í tvennt eftir því hvort fyrirtæki hafa orðið fyrir 60-80 prósenta tekjufalli eða 80-100 prósenta. Fyrirtæki geta mest fengið 17 og hálfa milljón, 2-2,5 (tvær til tvær komma fimm) á mánuði eftir því hversu mikið tekjurnar hafa fallið.  

Eingreiðsla til örorkulífeyrisþega 

Þá var tilkynnt um 50 þúsund króna skattfrjálsa eingreiðslu til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eiga rétt á lífeyri á árinu, til viðbótar við desemberuppbót upp á 45-60 þúsund. Þá hækka lífeyrisgreiðslur tekjulágra á næsta ári um nærri átta þúsund krónur umfram fyrirfram ákveðnar verðbætur.

Þá verða skerðingarmörk barnabóta hækkuð og Katrín Jakobsdóttir segir ljóst að barnafjölskyldur hafi þurft aukinn stuðning. „ Það sem við erum að fjalla um í örorkubótunum eru fjármunir sem höfðu áður verið ætlaðir í kerfisbreytingar en nýtast með þessum hætti að okkar tillögu,“  segir hún.