Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vegurinn hefur verið lokaður 40 sinnum í ár

Klettsháls að vetrarlagi
 Mynd: Vegagerðin - Vefmyndavél
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur þungar áhyggjur af samgönguöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum núna þegar vetur er að ganga í garð. Það sem af er ári hefur Klettsháls verið lokaður í fjóra klukkutíma eða meira í alls 40 skipti.

Þetta kemur fram í ályktun frá sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps.

Þar segir að stórauknir flutningar vegn framleiðslu á svæðinu krefjist öruggra samgangna. Klettsháls sé mikill farartálmi og fari vindstyrkur þar yfir 20 metra á sekúndu sé flutningabílum óheimilt að aka þar um. Þegar ástandið er þannig verði fólk og vörur að eiga greiða og örugga leið yfir Breiðafjörð með Baldri. 

Sveitarstjórnin leggur til að ferðum Baldurs verði fjölgað þannig að hægt verði að koma til móts við flutningaþörf svæðisins og hugað verði að endurnýjun ferjunnar til að tryggja að öryggi og aðbúnaður sé samkvæmt lagalegum kröfum.

Sveitarstjórnin leggur einnig þunga áherslu á að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á vegum á svæðinu verði verulega aukin og bætt.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir