Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þetta verður alltaf svolítil kristalskúluhagfræði“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Taka þarf spá Seðlabankans um fjölda erlendra ferðamenn hingað til lands á næsta ári með fyrirvara. Óvissuþættirnir eru margir og meiri fyrirsjáanleiki þarf að vera í sóttvarnaaðgerðum á landamærunum eigi ferðaþjónusta að eiga möguleika á að eflast á ný. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í nýútkomnum Peningamálum Seðlabankans er áætlað að 750.000 erlendir ferðamenn komi til landsins á næsta ári, sem er umtalsvert minna en í ágústspá Seðlabankans, þar sem áætlað var að þeir yrðu um ein milljón og í fjárlögum sem gera ráð fyrir 900.000 ferðamönnum.

„Óvissuþættirnir eru svo geysilega margir þegar við spáum svona fram í tímann að þetta verður alltaf svolítið kristalskúluhagfræði,“ segir Jóhannes.

Hann segir að eftir að jákvæðar fréttir hafi borist af prófunum af bóluefnum gegn kórónuveirunni hafi orðið vart við aukinn áhuga á Íslandsferðum.  Kannanir sýni að mikill vilji sé til ferðalaga. 

„Þetta eykur traust fólks á að það verði hægt að ferðast með eðlilegum hætti næsta sumar. Áhuginn á áfangastaðnum er til staðar, hér eru víðáttur og ekki yfirfullar  borgir og það er traust á því hvernig við höfum höndlað sjúkdóminn hingað til. Ég held að Ísland eigi alla möguleika með skýrri og góðri markaðssetningu,“ segir Jóhannes.

Fyrirsjáanleiki í framkvæmd sóttvarna á landamærunum er afar mikilvægur, segir Jóhannes. Hann sé minni hér en í öðrum Evrópulöndum þar sem ferðamenn fari eftir mismunandi sóttvarnareglum eftir því hvaðan þeir koma.

„Að til dæmis stórar ferðaskrifstofur úti í heimi sem koma með tug- eða hundruð þúsunda ferðamanna til Íslands á hverju ári geti nokkuð örugglega áttað sig á því hvaða forsendur liggja til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda á Íslandi um sóttvarnir á landamærunum og hvaða leiðir eru í boði. Þetta liggur ekki fyrir núna, það eina sem menn vita er að núverandi kerfi er gildi fram að desember og svo vita menn ekkert eftir það.“