Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsmenn kröfðust brottvikningar árið 1983

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Allt virðist hafa logað í illdeilum á vistheimilinu Arnarholti árið 1983, tólf árum eftir að geðdeild Borgarspítalans tók heimilið yfir. Nítján þáverandi og fyrrverandi starfsmenn á heimilinu skrifuðu undir undirskriftalista það sama ár, þar sem þess var krafist af Borgarspítalanum að starfsmanni á heimilinu yrði vikið úr starfi „vegna mikillar óánægju fyrr og síðar“. Viðtöl við starfsmenn voru tekin í kjölfarið. Borgarskjalasafn hefur hafnað beiðni fréttastofu um aðgang að viðtölunum.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í vitnaleiðslum árið 1971. Það sama ár tók geðdeild Borgarspítalans rekstur heimilisins yfir.

Tólf árum síðar, 22. október árið 1983, skrifuðu nítján þáverandi og fyrrverandi starfsmenn á heimilinu undir skjal þar sem sagði:

„Við undirrituð, sem erum núverandi og fyrrverandi starfsfólk Arnarholts, teljum að tími sé til kominn að [X] verði vikið úr starfi í Arnarholti vegna mikillar óánægju fyrr og síðar. Við erum reiðubúin að mæta á fund með stjórn B,S,P, sé þess óskað.“ 

Eftir að Borgarspítalinn fékk þennan undirskriftalista í hendur voru tekin ítarleg viðtöl. Þau fóru fram á nokkrum dögum í janúar og febrúar árið 1984.

Sanngjarnt og eðlilegt

Borgarskjalasafn hefur undir höndum 17 blaðsíður úr málasafni Borgarspítalans, sem hafa að geyma það sem kom fram í viðtölunum. Safnið hefur hafnað beiðni fréttastofu um aðgang að þessum skjölum. Í svari safnsins segir að skjölin varði viðkvæmt starfsmannamál sem sanngjarnt og eðlilegt sé að fari leynt, og vísar safnið í því samhengi til laga um opinber skjalasöfn. Þar segir meðal annars að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhags- og einkamálefni einstaklinga „sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á.“

Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hver það var sem starfsfólkið vildi að vikið væri frá störfum. Í bréfi sem Gísli Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Arnarholts, skrifaði Borgarspítalanum í febrúar 1984 og sagt var frá í fréttum í síðustu viku, gagnrýndi hann hins vegar harðlega framgöngu yfirhjúkrunarmannsins á heimilinu, og sagði meðal annars að „ósóminn“ væri „varinn ofan frá“. Gísli lagði til í bréfinu, að manninum yrði vikið frá störfum.

Þá hefur fréttastofa einnig undir höndum yfirlit yfir starfsemi geðdeildar Borgarspítalans í Arnarholti sem skrifuð var í október árið 1981. Þar er meðal annars vakin athygli á þeim „gífurlega vanda sem er í Arnarholti vegna skorts á faglærðu starfsliði“. Segir í yfirlitinu að hjúkrunarfræðingar fáist ekki til starfa við þær aðstæður sem þá væru í Arnarholti.

Þá segir í yfirlitinu að árið 1979 hafi heimilinu verið skipt í tvær deildir. Fram kemur að samskipti á milli iðjuþjálfunar og deildanna hafi verið mismunandi. Samskiptin hafi verið góð við aðra deildina, en mjög stirð við hina, eða nánast engin.

Í yfirlitinu segir einnig, að tíu árin þar á undan hafi orðið mikil breyting í Arnarholti, og að segja megi að þar hafi orðið bylting, meðal annars hvað varði húsnæði.