Sjónvarpsþættir kveikja áhuga á skák

Mynd: Rúv / Rúv

Sjónvarpsþættir kveikja áhuga á skák

19.11.2020 - 18:35

Höfundar

Sjónvarpsþættirnir The Queen's Gambit hafa slegið í gegn en þeir eru fáanlegir í gegnum efnisveituna Netflix og eru þeir vinsælustu þar á Íslandi. Skákíþróttin er leiðarstef í þáttunum og áhrif þeirra eru slík að Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands hefur fengið símtöl frá áhugasömum sem vilja læra skák eftir að hafa horft á þá. Þættirnir gerast á tímum þar sem skák naut mikilla vinsælda. Gunnar segir margt hafa breyst, en skákin haldi sínu, sérstaklega á netinu.

Þættirnir fjalla um undrabarnið Elizabeth Harmon, en hún nær ung að aldri einstakri tengingu við skákíþróttina og leggur svo skákheiminn að fótum sér. Það ferðalag er þó þyrnum stráð, Elizabeth er kona í karlaheimi og glímir við ýmsa erfiðleika í einkalífinu, er munaðarlaus og á við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Þættirnir þykja einstaklega vel gerðir, búningar og leikmynd gleðja augað, leikurinn er vandaður og söguþráðurinn grípandi - og skákin, sá magnaði leikur, keyrir allt áfram og er gert hátt undir höfði.

Gunnar Björnsson forseti skáksambands Íslands er einn þeirra sem hefur gleypt í sig þættina. Hann segist mjög ánægður með þá - enda gerast þeir á gullaldartíma skáklistarinnar. Þá risu sovéskar og bandarískar skákhetjur hátt og langar viðureignir í skák voru fullkomlega boðlegt sjónvarpsefni.

En leiknu efni er gjarnan legið á hálsi fyrir að taka sér skáldaleyfi sem þeim sem þekkja raunverulega til eiga afar erfitt með. Til að mynda finnst mörgu heilbrigðisstarfsfólki nánast sársaukafullt að horfa á helstu læknadramaþætti heims sökum þess hversu fjarri raunveruleikanum allt starf lækna og starfsemi sjúkrahúsa er. En hvað með skákfólk, getur það horft á The Queen's Gambit án þess að pirrast?

„Jájá, skákmenn þekkja þetta andrúmsloft sem birtist þarna, þetta spennuþrungna andrúmsloft og skáklegu atriðin eru gerð mjög vel enda var Kasparov þeim til aðstoðar í þessu,“ segir Gunnar sáttur.

En þetta er gullöldin, skák naut gríðarlegra vinsælda víða um heim, það mátti reykja yfir skákborðinu. Allt er breytt í dag, er skákíþróttin búin?

„Skákin er ekki alveg jafn stór á þennan mælikvarða í dag, en hún er samt alveg jafn vinsæl sem internet sport og er vinsælasti „tölvuleikur“ í heiminum og margir horfa á skák í gegnum internetið.“

Í covid hefur fólk svo teflt meira á netinu en nokkru sinni fyrr. Og eftir að þættirnir voru frumsýndir hafa augu fleiri beinst að þessari einstöku íþrótt. Gunnar segir leitarorð tengd skák hafa rokið upp á leitarvélum um heim allan. Gætu þættirnir orðið til þess að fleiri vilja læra og taka þátt?

„Já, ég hef strax fengið nokkrar fyrirspurnir,“ segir Gunnar. „Ég held að skákin muni alltaf pluma sig vel. Við höfum náð góðum árangri með krakka og erum með skák inni í flestum skólum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Skákin hefur alltaf haldið sínu og gerir það áfram. “

En veit Gunnar um börn og ungmenni þarna úti sem sýna viðlíka hæfileika og Elizabeth Harmon í þáttunum?

„Já, það eru nokkur efni sem eru kannski sex, sjö, átta, níu ára. Ef þau leggja sig fram og fá góða kennslu þa geta þau náð virkilega langt í skákinni. En þú þarft að hafa bæði hæfileikana og þarft líka að leggja á þig mikla vinnu.“

THE QUEEN'S GAMBIT (L to R) ANYA TAYLOR as BETH HARMON in THE QUEEN'S GAMBIT. Cr. CHARLIE GRAY/NETFLIX © 2020
 Mynd: Netflix - Queen's Gambit
Aðalhetja þáttanna The Queen's Gambit, skákdrottningin Elizabeth Harmon