Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:
Sofie er gift tveggja barna móðir sem býr í því sem virðist vera miklar vellystingar í stóru húsi með nýlegum innréttingum í fínu hverfi í Stokkhólmi. Hún á allt. Huggulegan mann sem blandar flókna kokteila í fínum boðum fyrir plebbalegu vini þeirra, tvö vel upp alin börn og hefur þegar við kynnumst henni nýlega landað starfi sem ráðgjafi hjá nokkuð gamaldags útgáfufyrirtæki með það að markmiði að nútímavæða það og færa yfir í hinn stafræna heim.
Það kemur fljótlega í ljós þegar hún mætir til vinnu að hún er ein af þessum konum. Framakona á ferðinni sem er staðráðin í að láta engan yfir sig vaða og beitir lúalegum brögðum til að öðlast virðingu.
Hún er konan sem kallaði þig fröken á kaffihúsinu
Hún er konan sem kallaði þig fröken á kaffihúsinu, hún er Karen sem heimtar alltaf afslátt eða þarf að tala við yfirmann. Hún er þessi frænka í fjölskylduboðinu sem þekkir veiku bletti fjölskyldunnar og gerir lítið úr þeim á sinn alvanalega passaggressíva hátt svo öllum líði örugglega illa með sjálfa sig. Svona birtist hún Sofie okkur í sænsku dramakómedíuþáttunum Love & Anarchy, Ást og uppreisn eða Kärlek och Anarki eftir Lisu Langseth, sem nýlega voru frumsýndir á Netflix.
Takið samt eftir að ég sagði sænskur þáttur. Hann svíkur auðvitað ekki væntingar þeirra sem kunna að meta skandinavískt raunsæi svo ekki líður á löngu áður en einhver er kominn á klósettið og búinn að girða niður um sig. Það er hún Sofie okkar í þessu tilfelli.
Sjálfsfróun og fantaskapur
Undir yfirborðinu leynist nefnilega manneskja sem þrátt fyrir allsnægtirnar er ekki fullnægð á öllum sviðum í lífinu. Hún bregður sér afsíðis reglulega í óvæntustu aðstæðum til að horfa á klám í símanum sínum og fróa sér.
Samskipti hennar og nýju vinnufélaganna fara illa af stað. Hún skammast í sæta unga upplýsingatæknifulltrúanum Max og niðurlægir hann fyrir framan samstarfsfólk og það sama gildir í raun um alla undirmenn hennar. Hún er strax á fyrsta degi á góðri leið með að drepa allan móral og lífsvilja samstarfsfólks en hún er verðmætur starfsmaður fyrir lummulega bókaútgáfu og þau átta sig á að hún er því miður augljóslega ekki á förum. Sem áhorfandi finnur maður reglulega til með öllum þeim sem þurfa að þola hana á hverjum degi upp frá þessu. Eftir fyrsta þátt virðist ómögulegt að hafa samúð með þessum sjálfumglaða dóna.
En svo gerist það sem setur áform hennar um áframhaldandi fautaskap í uppnám. Þegar Sofie heldur að hún sé ein eftir í húsinu kvöldið eftir fyrsta daginn sinn ákveður hún auðvitað að vippa niður um sig buxunum og skoða klámið sitt. Það er þá sem Max á leið inn í húsið og hann rekur augu í hana við þessa ótrúlega óviðeigandi iðju sína. Hann smellir af mynd.