Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar

Mynd: Netflix / Netflix

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar

19.11.2020 - 09:17

Höfundar

Þó það sé ekki skynsamlegt að fróa sér í vinnunni og það geti haft alvarlegar afleiðingar þá hafa flestir gott af því að gera einhverskonar uppreisn. Love and Anarchy, nýir sænskir sjónvarpsþættir sem sýndir eru á Netflix og fjalla meðal annars um þetta, eru stórkostlegir, að sögn Júlíu Margrétar Einarsdóttur sjónvarpsgagnrýnanda Lestarinnar.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Sofie er gift tveggja barna móðir sem býr í því sem virðist vera miklar vellystingar í stóru húsi með nýlegum innréttingum í fínu hverfi í Stokkhólmi. Hún á allt. Huggulegan mann sem blandar flókna kokteila í fínum boðum fyrir plebbalegu vini þeirra, tvö vel upp alin börn og hefur þegar við kynnumst henni nýlega landað starfi sem ráðgjafi hjá nokkuð gamaldags útgáfufyrirtæki með það að markmiði að nútímavæða það og færa yfir í hinn stafræna heim.

Það kemur fljótlega í ljós þegar hún mætir til vinnu að hún er ein af þessum konum. Framakona á ferðinni sem er staðráðin í að láta engan yfir sig vaða og beitir lúalegum brögðum til að öðlast virðingu.

Hún er konan sem kallaði þig fröken á kaffihúsinu

Hún er konan sem kallaði þig fröken á kaffihúsinu, hún er Karen sem heimtar alltaf afslátt eða þarf að tala við yfirmann. Hún er þessi frænka í fjölskylduboðinu sem þekkir veiku bletti fjölskyldunnar og gerir lítið úr þeim á sinn alvanalega passaggressíva hátt svo öllum líði örugglega illa með sjálfa sig. Svona birtist hún Sofie okkur í sænsku dramakómedíuþáttunum Love & Anarchy, Ást og uppreisn eða Kärlek och Anarki eftir Lisu Langseth, sem nýlega voru frumsýndir á Netflix.

Takið samt eftir að ég sagði sænskur þáttur. Hann svíkur auðvitað ekki væntingar þeirra sem kunna að meta skandinavískt raunsæi svo ekki líður á löngu áður en einhver er kominn á klósettið og búinn að girða niður um sig. Það er hún Sofie okkar í þessu tilfelli.

Sjálfsfróun og fantaskapur

Undir yfirborðinu leynist nefnilega manneskja sem þrátt fyrir allsnægtirnar er ekki fullnægð á öllum sviðum í lífinu. Hún bregður sér afsíðis reglulega í óvæntustu aðstæðum til að horfa á klám í símanum sínum og fróa sér.

Samskipti hennar og nýju vinnufélaganna fara illa af stað. Hún skammast í sæta unga upplýsingatæknifulltrúanum Max og niðurlægir hann fyrir framan samstarfsfólk og það sama gildir í raun um alla undirmenn hennar. Hún er strax á fyrsta degi á góðri leið með að drepa allan móral og lífsvilja samstarfsfólks en hún er verðmætur starfsmaður fyrir lummulega bókaútgáfu og þau átta sig á að hún er því miður augljóslega ekki á förum. Sem áhorfandi finnur maður reglulega til með öllum þeim sem þurfa að þola hana á hverjum degi upp frá þessu. Eftir fyrsta þátt virðist ómögulegt að hafa samúð með þessum sjálfumglaða dóna.

En svo gerist það sem setur áform hennar um áframhaldandi fautaskap í uppnám. Þegar Sofie heldur að hún sé ein eftir í húsinu kvöldið eftir fyrsta daginn sinn ákveður hún auðvitað að vippa niður um sig buxunum og skoða klámið sitt. Það er þá sem Max á leið inn í húsið og hann rekur augu í hana við þessa ótrúlega óviðeigandi iðju sína. Hann smellir af mynd.

Játa eða mana

Þegar Sofie mætir aftur til starfa kemst hún fljótt að því að Max er með mjög vafasamt tromp á hendi. Til að koma í veg fyrir að hann deili myndinni með öllum á vinnustaðnum þarf hún að gera það sem hann segir.

Það sem þau bæði eru sek um er auðvitað gjörsamlega brenglað og siðlaust en staðan kemur upp óvæntri spennu í lífi hennar. Sofie og Max, sem er ábyggilega næstum 20 árum yngri en hún, byrja að leika leik.

Þau mana hvort annað til að gera verkefni á víxl og valda þannig óvæntum en sprenghlægilegum og í raun bráðnauðsynlegum usla inni á vinnustaðnum. En sakleysislegir leikirnir verða fljótlega að óstjórnlegri katastrófu, katastrófu sem þau bæði þurftu kannski á að halda á sinn hátt en veldur miklum glundroða í hversdeginum og stefnir í öllu fyrirtækinu og einkalífi Sofie í mikla hættu.

Hatturinn étinn

Það var bara nokkuð bragðgóður hatturinn sem ég þurfti að éta eftir að hafa fullyrt upphátt eftir fyrsta þáttinn að ég gæti ekki elskað eða samsamað mig með Sofie. Hún er þegar vel er að gáð algjörlega frábær.

Það kemur nefnilega í ljós að undir brynjunni leynist yndisleg móðir barna sinna, lítil stelpa sem hefur allt sitt líf alist upp með föður með geðhvörf og þrátt fyrir flækjurnar sem veikindin hafa skapað í sambandi þeirra er það fallegt og sterkt. Hún kemst að því þegar hún fer að leika leikinn með Max að lífið sem hún lifði og varði með stælunum er að morkna. Hjónabandið er ástlaust, hún er stöðnuð og hana vantar ást og að gera uppreisn.

Illi eiginmaðurinn og sæti bjargvætturinn

Til að réttlæta gjörðir Sofie gagnvart hjónabandinu og fjölskyldunni er kannski stundum fullt langt gengið í að láta manninn hennar vera leiðinlegan við hana. Það verður svo kyrfilega ljóst að honum er sama um hennar ástríður og tilfinningar og stundum finnst manni kannski fullmikið hamrað á því sama til að hvítþvo hetjuna af sínum syndum.

Kunnuglegir hvítir millistétta-kvíðasjúklingar í krísu

En annars eru karakterarnir frábærlega skapaðir. Allir á vinnustaðnum eru leitandi, komplexaðir kvíðasjúklingar sem leita að lífsfyllingu með öllum ráðum. Hvítt millistéttarfólk í lífskrísu flettir í sjálfshjálparbókum, prufar ofskynjunarlyfið ayahuasca með öðrum hörklæddum týndum hippum eða leitar að tilgangi lífsins í misheppnuðum ástarsamböndum. Allir eru sympatískir á sinn hátt. Það er stólpagrín gert að tilvistarkreppu ríku hvítu menningarelítunnar og plebbisminn í bókmenntabransanum fær góðan skell.

Pólitík, stéttaskipting og geðsjúkdómar

En undir niðri er líka alvarleiki, pólitík, ádeila á stéttaskiptingu, mannleg og mikilvæg nálgun á geðsjúkdóma og gildi listarinnar. Og þegar vel er að gáð reynist þarna líka nístandi falleg raunsönn ástarsaga af forboðnum eldheitum ástum. Það kemur eflaust í ljós að listin þrífst ekki þegar hún er farin að snúast um peningana eins og ástin þrífst ekki þegar hún er að kafna í ímyndarsköpun og framagræðgi. 

Eldur kviknar og skógurinn rís

Það kemur í ljós að Sofie hefur sjálf skrifað bók um lítið fræ sem vildi verða skógur og til að komast á þann stað kveikir hún elda sem verða að miklu báli. Hinir stórkostlegu þættir eru sem lítið gleðifræ í kóf-hversdagsleika okkar innilokaða fólksins. Ef þú elskar Klovn, The Office og Pabbahelgar eða ert týpan sem grætur yfir fallegum ástarsögum þá eru Love and Anarchy að fara að veita þér ómælda gleði.

Þegar líður á seríuna kemur margt í ljós sem má draga lærdóm af. Sannleikurinn leynist þegar vel er að gáð líklega í áhættunni. Það er mikilvægt er að hrista upp og kveikja í því lífi, þeim vinnustað og þeim hjörtum sem eru að staðna. Upp úr eldglæðunum sprettur skógurinn.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fislétt grín um alvarleg málefni

Sjónvarp

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta

Kvikmyndir

Prinsessurnar sem frelsuðu sig sjálfar úr álögum