Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Seðlabankastjóri segist ánægður með stöðu krónunnar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist ánægður með stöðu krónunnar og telur að verðbólga muni hverfa á næsta ári. Nauðsynlegt hafi verið að ná fram vaxtalækkunum og örva nýbyggingar. Seðlabankinn spáir nú meiri efnahagssamdrætti en búist var við í lok sumars. Stýrivextir voru lækkaðir í gær og bankinn boðar kaup á ríkisskuldabréfum til að styðja við þjóðarbúskapinn.  

Ásgeiri var gestur Kastljóss í kvöld og sagði þar að vaxtalækkun hafi heppnast fyrir alla landsmenn.

„Þetta er mjög vel heppnuð aðgerð; fasteignamarkaðurinn hefur tekið við sér, við höfum séð stýrivaxtalækkanir skila sér til almennings, það hefur ekki gengið eins vel fyrir fyrirtækin en það er eitthvað sem við munum vinna í,“ sagði Ásgeir. „En allir sem eru með breytilega vexti hafa tryggt sér vaxtalækkun.“

Hann sagði að sá möguleiki væri fyrir hendi að fasteignabóla myndaðist, gerðist það hefði Seðlabankinn ýmis ráð til að grípa inn í.  „Þá getum við sett viðmið varðandi skuldsetningu, varðandi hvernig útlánum bankanna er háttað; hægja á útlánum og koma í veg fyrir skuldsetningu.“

Ásgeir sagði að hvatning á fasteignamarkaði hafi verið alger grundvallarforsenda þess að hvetja efnahagskerfið áfram. Ná fram vaxtalækkunum og örva nýbyggingar.  „Bankarnir áttu þennan pening , hann var inni í Seðlabankanum  - við lækkuðum vexti og ýttum honum út. Við lækkuðum síðan bindiskyldu og eiginfjárkvaðir til þess að gera þetta.“

Vandmeðfarið fyrir lítið og opið hagkerfi

Ásgeir sagði mikilvægt að aukin fjárþörf ríkissjóðs komi ekki fram í hærri vöxtum.  Spornað hafi verið við því með því að Seðlabankinn komi auknu lausafé út í hagkerfið . „Næsta skref verður að við erum að fara að prenta peninga fyrir ríkissjóð, það eru 150 milljarðar og ríkissjóður ræður hvernig þeim peningum verður dreift um kerfið. Þeim er dreift í gegnum atvinnuleysisbætur og styrki og með öðrum hætti.“

Hann sagði að þetta sé vandmeðfarið; íslenska hagkerfið sé lítið og opið. „Þess vegna hef ég viljað stíga varlega til jarðar í þessu og hef að einhverju leyti verið gagnrýndur fyrir það. “

Á betri stað en margir aðrir seðlabankar

Ásgeir sagði að margir erlendir seðlabankar séu farnir að kaupa  ríkisskuldabréf í auknu mæli. Hann sagði að staðan hér á landi væri að mörgu leyti ólík stöðunni í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.  „Við höfum verið með hærri verðbólgu og minna kerfi sem er næmara fyrir útflutningi.  Það er svo margt sérstakt við Ísland; við vorum í gjaldeyrishöftum eftir hrunið, allt fjármálakerfið var endurskipulagt. Við erum að mörgu leyti á betri stað en margir aðrir seðlabankar.“

Hann sagðist ánægður með stöðu krónunnar í dag. „Algjörlega. Krónan er á sama stað og í maí. Við verðum að afla útflutningstekna til þess að geta flutt inn vörur. Við þurfum að halda jafnvægi á kerfinu. Ef við verðum fyrir áfalli í útflutningi þá verður gengið að veikjast og það er hluti af því að við náum fram nýjum hagvexti. Það sem er erfitt er að tryggja að þetta verði ekki of mikil veiking.“

Ákváðu að spyrna ekki gegn fyrstu 10 prósentunum

Ásgeir sagði að ákveðið hafi verið að spyrna ekki gegn fyrstu 10 prósentunum af veikingunni. „En núna í haust þegar krónan fór að veikjast meira þá spyrnti Seðlabankinn á móti. Við seldum gjaldeyri fyrir 80 milljarða og tókum peninga úr umferð. Þá hækkaði ávöxtunarkrafan á skuldabréfunum.“

Að mati Ásgeirs má búast við að efnahagslífið fari að taka við sér seinnihluta næsta árs. Seðlabankinn hafi margar leiðir til að hafa áhrif á gang mála, sagði Ásgeir og nefndi þar markaðsinngrip, gjaldeyrisinngrip, inngrip á skuldabréfamarkað og að setja hömlur á útlán bankanna ef talin væri þörf á því.

Ásgeir sagðist hafa áhyggjur af verðhækkunum á matvöru og öðru. Krónan sé byrjuð að styrkjast og hann telji að það muni halda áfram. „Ég held að mesta verðbólgan sé farin í gegn og þegar kemur fram á næsta ár muni hún fara niður í ekki neitt. “