Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Minntust 250 ára afmælis Bertels Thorvaldsen

Mynd: RÚV / RÚV

Minntust 250 ára afmælis Bertels Thorvaldsen

19.11.2020 - 18:07

Höfundar

Þess var minnst í dag að 250 ár eru liðin frá fæðingu myndhöggvarans Bertels Thorvaldsen. Af því tilefni lagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minningarkrans við styttu Bertels í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Sérstök hátíðardagskrá fór svo fram í Listasafni Íslands þar sem efnt var til málþings um listamanninn.

Bertel Thorvaldsen fæddist í Kaupmannahöfn árið 1770. Móðir hans var dönsk en faðir hans var Gottskálk Þorvaldsson prestssonur úr Skagafirði. Bertel skapaði mörg hundruð listaverk, þar á meðal skírnarfontinn í Dómkirkjunni í Reykjavík og styttu af Adonis sem stendur í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg. Verk hans má finna víðar, meðal annars í Kaupmannahöfn og Péturskirkjunni í Róm.