Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mat Háskólans nauðsyn til að greiða meðferð barna

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjúkratryggingar Íslands samþykkja ekki greiðsluþátttöku í meðferð barna sem fæðast með skarð í gómi nema tannréttingasérfræðingur hjá Háskóla Íslands meti meðferðina nauðsynlega og tímabæra. Fjölskyldur tveggja barna með skarð í gómi ætla að höfða mál gegn ríkinu vegna synjunar Sjúkratrygginga um greiðsluþátttöku.

Fjölskyldurnar hafa staðið í áralangri baráttu við kerfið og þótt heilbrigðisráðherra hafi í tvígang breytt reglugerð um þessi mál, fá fjölskyldurnar áfram synjun.  María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að auk tannlæknadeildar taki fagnefnd Sjúkratrygginga afstöðu til slíkra mála.

„Það er þannig að í reglugerðinni, eftir að henni var breytt þá er sérstaklega tekið fram að það þurfi að fara fram mat hjá Háskóla Íslands, tannréttingarsérfræðingum þar og greiðsluþátttaka byggist á því að fyrir liggi mat þeirra á því að meðferð sé bæði nauðsynleg og tímabær,“ segir María. „Þannig að ef það mat liggur ekki fyrir þá taka Sjúkratryggingar, samkvæmt þessari reglugerð, ekki til þessarar meðferðar.“

Móðir annars barnsins sem um ræðir segir að öll þrjú börnin sem fengu synjun hafi farið í mat hjá Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða þess hafi verið að þau hafi öll þörf fyrir meðferð, tvö þeirra eru metin í þörf nú þegar en þriðja barnið bíður eftir að tannskiptum ljúki. Móðirin segir að  fagnefnd Sjúkratrygginga hafi hins vegar metið fæðingargallann sjálfstætt og rökin séu að vandamálið sé ekki nógu alvarlegt til að falla undir viðkomandi reglugerð.
 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV