Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Listin að hengja upp listaverk

Mynd: RÚV / RÚV

Listin að hengja upp listaverk

19.11.2020 - 14:48

Höfundar

Sérfræðingar hjá Listasafni Reykjavíkur kenna réttu handtökin við að hengja upp málverk og myndir heima fyrir.

Öll erum við að verja miklu meiri tíma heima hjá okkur en venjulega. Þeim tíma er ekki bara varið í heimavinnu eða að horfa á Netflix heldur er fólk líka að ráðast í allskonar framkvæmdir sem hafa setið á hakanum, til dæmis að hengja upp myndir. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Edda Halldórsdóttir og Erik Hirt eru sérfræðingar hjá Listasafni Reykjavíkur. Þau setja meðal annars upp sýningar og annast safnkostinn. Hluti af þeirra starfi er að hafa safneignina sýnilega í hinum fjölmörgum stofnunum Reykjavíkurborgar. Þau eru því þaulreynd í þeirri list að hengja upp listaverk og hafa jafnvel haldið námskeið fyrir almenning. En gilda sömu viðmið þegar myndir eru hengdar upp á listasöfnum og á heimilum?

Efni og birtuskilyrði

„Það má kannski segja að það séu vissir þættir sem er gott að huga að,“ segir Edda. „Fyrst og fremst að velta því fyrir sér hvers konar verk þú ert með í höndunum; hvort það sé olíumálverk eða teikning á pappír sem er viðkvæmari. Þá er mikilvægt að huga að birtuskilyrðum í rýminu. Það er ekki gott að hengja teikningu á flöt þar sem er beint sólarljós. Það er ekki beinlínis gott fyrir olíumálverk heldur þótt þau séu harðgerðari en vatnslitamyndir eða blýantsteikningar.“

Miðlínan er mikilvægust

Erik bendir á að mikilvægt sé að ákveða samræmda miðlínu allra verka á heimilinu. Á Listasafni Reykjavíkur er miðlínan miðuð við 144-146 cm hæð. Hæð rammanna er deilt í tvo og línan miðuð við miðjupunktinn.

„En svo þarf líka að taka tillit til húsgagna. Ef verkið er til dæmis fyrir ofan sófa, þá þarf það kannski að vera aðeins hærra.“

Hankar frekar en vírar

Erik segir mikilvægt að huga að sjálfu upphenginu, það er að segja hvernig myndin sé hengd upp. Algengt var að vír væri strengdur aftan á rammann og hengdur á nagla en Erik mæli ekki með því.

„Það er erfitt að ná myndinni beinni og þarf lítið hnjask til að hún skekkist.“ Hann mælir frekar með sérstökum tönnum, krókum eða hönkum sem geri myndirnar stöðugri.

„Hankar og krókar eru orðnir nauðsynlegir núna, sérstaklega í þessum jarðskjálftahrinum - þá er ekki gott að vera með mynd á vírum.“

Verkfæri

Loks eru það auðvitað verkfærin, sem geta verið breytileg eftir því hvers konar efni veggurinn er úr en það er alltaf nauðsynlegt að hafa málband við höndina. Erik notar leysigeisla núorðið til að mæla beina línu en gamla góða hallamálið gerir auðvitað sama gagn.

Erik og Edda tóku Menninguna í kennslustund í upphengingu mynda. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

Ófatlað fólk sér hlutina stundum skakkt

Pistlar

Hverfulir þekkingarþræðir á þjóðlistasafninu

Myndlist

„Það er svo mikill hversdagsleiki núna“

Myndlist

Forðabúrið fær nýja merkingu í Nýlistasafninu