Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Helmingur umsækjanda þegar með vernd í öðru landi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um helmingur þeirra sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi í ár höfðu þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru landi, flestir í Grikklandi. Tveir umsækjendur hafa verið sendir til Grikklands í ár og fjórir fóru þangað sjálfviljugir.Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata um endursendingu flóttafólks til Grikklands.

Af þeim 596 sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi á tímabilinu janúar til loka október voru 293 skráðir með vernd í öðru ríki, þar af 221 með vernd í Grikklandi.

Útlendingastofnun synjaði 46 umsækjendum um efnislega meðferð umsókna þeirra á grundvelli þess að þeir höfðu þegar hlotið alþjóðlega vernd. Þar af höfðu 34 hlotið vernd í Grikklandi.

Í svari ráðherra kemur fram að það sé ekki ráðuneytisins að meta hvort aðstæður í einstökum ríkjum væru þannig að óforsvaranlegt væri að vísa fólki þangað. Það væri mat Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála.

„Í framkvæmd hafa Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, sem og systurstofnanir þeirra í öðrum Evrópuríkjum, ekki talið að aðstæður flóttafólks í Grikklandi, þ.e. þeirra sem hafa fengið viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn þar í landi, séu þannig að þær samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins eða jafnist á við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Áréttað er að flóttamannakerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi, og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki,“ segir í svarinu.