Hálfkláruð hornsónata Beethovens sem sló í gegn

Mynd: - / SÍ

Hálfkláruð hornsónata Beethovens sem sló í gegn

19.11.2020 - 17:00

Höfundar

Heimsending dagsins frá Sinfóníuhljómsveit Íslands er eftir afmælisbarn ársins, hinn 250 ára gamla en síunga Ludwig van Beethoven.

Halla Oddný Magnúsdóttir viðburðastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands skrifar:

Heimsending Sinfóníuhljómsveitar Íslands er í dag í höndum þeirra Stefáns Jóns Bernharðssonar hornleikara og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þau hafa bæði starfað um árabil með hljómsveitinni, Stefán Jón leiðir horndeild sveitarinnar og Anna Guðný hefur verið fastráðinn píanóleikari frá 2005. Bæði koma einnig reglulega fram sem einleikarar og í kammertónlist af ýmsum toga, hafa hljóðritað margvíslega tónlist og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Heimsendingar Sinfóníuhljómsveitar Íslands berast nú á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17 á meðan samkomutakmarkanir hamla hefðbundnu tónleikahaldi, á menningarvef RÚV og á vef og Facebook-síðu hljómsveitarinnar.

Samið fyrir dularfulla hornstjörnu

Verkið sem Stefán Jón og Anna Guðný flytja í Heimsendingu dagsins er eftir afmælisbarn ársins, hinn 250 ára gamla en síunga Ludwig van Beethoven, Sónata fyrir horn og píanó í f-dúr, ópus 17. Verkið samdi Beethoven árið 1800, þrítugur að aldri, fyrir goðsagnakenndan hornleikara sem ferðaðist um Evrópu undir ítölsku nafni, Giovanni Punto, en var raunar frá Bæheimi og hét upphaflega Jan Václav Stich. Árið 1800 var hljóðfærið horn ólíkt því sem gerist í dag. Horn þess tíma voru svokölluð náttúruhorn. Á þeim voru engir ventlar, og voru þau aðeins hönnuð til að leika tóna náttúrulegu yfirtónaraðarinnar. Stich notaði byltingarkennda tækni til að beygja og sveigja tóna hornsins svo hægt væri að spila á það fleiri nótur krómatíska tónstigans. Þetta gerði hann með því að stinga vinstri hendi upp í bjöllu hornsins og loka því að hluta. Þegar von var á þessum sérstæða virtúós til Vínarborgar lét Beethoven sitt ekki eftir liggja, heldur samdi með hraði glæsilega sónötu fyrir horn og píanó, sem hann hugðist leika sjálfur með Punto á tónleikum sem auglýstir voru 18. apríl 1800 í Burgtheater í Vín. Verkið var sérsniðið að framúrskarandi tæknigetu hornleikarans með þeim afleiðingum að fáir ef nokkrir aðrir hornleikarar samtímans gátu látið sig dreyma um að spila það.

Beethoven á síðustu stundu

Beethoven hafði ekki langan tíma til að fullklára verkið fyrir tónleikana og raunar segir sagan að hann hafi ekki klárað að skrifa út hornpartinn fyrr en kvöldið fyrir frumflutninginn. Þar sem Beethoven sá sjálfur um píanóleikinn segir sagan að hann hafi ekkert verið að stressa sig á því að skrifa hann niður, heldur hafi hann einfaldlega spunnið sinn part á staðnum. Hvort sem þetta er algjörlega sannleikanum samkvæmt eða ekki virðast vinnubrögðin alls ekki hafa komið að sök, því verkið og flutningurinn slógu í gegn á tónleikunum, og fögnuðu áheyrendur svo ákaflega að Beethoven og Punto urðu að flytja verkið aftur í heild sinni. Hefur Beethoven þá væntanlega þurft að spinna sig í gegnum allt saman upp á nýtt við hljómborðið.

Hver er þessi Beethoven?

Eftir vel heppnaðan frumflutning í Vínarborg fluttu þeir félagar verkið saman í Búdapest mánuði síðar. Ungverskir áheyrendur tóku verkinu líka vel, en það segir sitt um frægð hornleikarans Giovannis Puntos að einn tónlistargagnrýnandi á að hafa skrifað: “Hver er þessi Beethoven? Við þekkjum ekki nafnið hér um slóðir. En að sjálfsögðu er Punto vel þekktur!”

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands: Dúó Edda