Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hafa áhyggjur af að fólk gleymi sér um jólin

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þótt kórónuveirufaraldurinn sé á niðurleið núna verði að fara hægt í sakirnar við að aflétta takmörkunum. Hann hefur áhyggjur af því að fólk gleymi sér um jólin og í aðdraganda jólanna. Alma Möller landlæknir segir að embættið hafi til athugunar að gefa út sérstakar leiðbeiningar um boð í heimahúsum og hvernig sé best að haga sóttvörnum í þeim.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Aðeins fjögur ný kórónuveirusmit greindust í gær. Tveir þeirra smituðu voru ekki í sóttkví. Nýgengi innanlandssmita hér á landi er nú það minnsta í Evrópu. Engu að síður varaði sóttvarnalæknir við værukærð. „Þetta stendur og fellur með því hvernig fólk viðhefur einstaklingsbundnar sóttvarnir.“

Þórólfur sagði að þriðja bylgjan hefði verið drifin áfram af hópamyndunum; hjá fjölskyldum, vinahópum og í íþróttastarfi.  Þess vegna hefði hann áhyggjur af því að fólk gæti gleymt sér þegar það kæmi saman um jólin og í aðdraganda jólanna.

Jólahaldið ráðist fyrst og fremst af því hvað gerðist í faraldrinum í desember og því ætti að fara varlega og rólega í öll jólaboð. „Það er alveg sjálfsagt að bjóða ömmu í jólaboð en þá verður fólk líka að gæta vel að leiðbeiningum, handþvotti og öðru sem við höfum predikað um. Ekki fara í hópa ef þú ert með minnstu einkenni.“

Alma tók undir þetta og sagði að til greina kæmi að gefa út sérstakar leiðbeiningar um boð í heimahúsum og hvernig haga beri sóttvörnum í þeim.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV