Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjórðungur úr milljón látinn af völdum COVID-19 vestra

19.11.2020 - 02:44
Auglýsing um skimun fyrir COVID-19 við flugvöllinn í Los Angeles.
 Mynd: AP
Yfir 250 þúsund hafa orðið COVID-19 að bráð í Bandaríkjunum. Þetta sýna nýjustu tölur frá Johns Hopkins háskólanum. Langflest dauðsföll í heiminum af völdum sjúkdómsins hafa orðið þar í landi,

Brasilía fylgir í kjölfarið þar sem tæp167 þúsund hafa látist og á Indlandi ríflega 130 þúsund. Mexíkó er svo í fjórða sæti með rúmlega 99 þúsund andlát af völdum COVID-19.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur stöðugt gert lítið úr ógninni sem stafar af faraldrinum, ber sjaldan grímu og hélt fjölmennar samkomur í aðdraganda forsetakosninganna 3. nóvember síðastliðinn.

Smitum hefur fjölgað mjög undanfarið nánast í hverju einasta ríki Bandaríkjanna en þrátt fyrir það er allur gangur á samkomutakmörkunum, grímunotkun og öðru sem hægt væri að beita til að draga úr útbreiðslu veirunnar.

Dag hvern andast um þúsund Bandaríkjamenn af völdum hennar og 150 þúsund ný smit eru tilkynnt. Yfirvöld í New York borg hafa fyrirskipað að almenningsskólum verði lokað í þessari viku auk þess sem hömlur hafa verið settar á starfsemi öldurhúsa og veitingastaða.

Á heimsvísu hafa nú 1.343.000 látist af völdum kórónuveirunnar frá því faraldurinn braust út í Kína undir lok síðasta árs. Nú eru miklar vonir bundnar við tvö bóluefni þar sem niðurstöður tilrauna lofa góðu.

Nokkur bið kann þó að verða eftir að bólusetningar hefjist en þangað til hvetja heilbrigðisyfirvöld um veröld alla almenning til þess að viðhafa ýtrustu sóttvarnir.