Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Evrópu bíða sex erfiðir mánuðir

epa08827327 Greek medical staff performs a Covid 19 rapid test just after collecting a swab from passing drivers in Argos, Peloponnese, Greece, 18 November 2020.  EPA-EFE/BOUGIOTIS VANGELIS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Næstu sex mánuðir verða erfiðir fyrir lömd Evrópu. Þetta er mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Samkvæmt skrám stofnunarinnar létust meira en 29.000 Evrópubúar úr COVID-19 í síðustu viku, eða einn á 17 sekúndna fresti.

Hans Kluge, forstjóri Evrópuskrifstofu WHO, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var í Kaupmannahöfn í dag að svo virtist þó sem aðeins hefði dregið úr fjölguninni.

Nú hafa tæplega 16 milljónir COVID-19 tilvik verið greind og skráð í Evrópu eða nákvæmlega 15.999.670 og 359.195 hafa látist þar af völdum veirunnar. Bretland er það land Evrópu þar sem flestir hafa látist vegna þessa, 53.870.

Frakkland er það Evrópuland þar sem flest tilvik hafa greinst, en þar eru þau 2.115.717. Kluge sagði á fundinum að hann hefði sérstakar áhyggjur af stöðu mála í Frakklandi og Sviss, en í þessum tveimur löndum er rúmanýting á gjörgæsludeildum sjúkrahúsanna 95%.

„Það er ljós við endann á göngunum, “ sagði Kluge á fundinum. „En þetta verða erfiðir sex mánuðir.“