Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekkert COVID-19 smit í minkum hér á landi

19.11.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Enginn minkur greindist með kórónuveiruna í skimun Matvælastofnunar sem fram fór á dögunum. Tekin voru sýni á öllum minkabúum landsins. Hertar sóttvarnir verða fyrirskipaðar á búunum,

Sýnin voru tekin úr dauðum minkum sem lógað var vegna árvissrar pelsunar. Þegar pelsun lýkur á minkabúum hefur minkastofn landsins minnkað í um 15 þúsund lífdýr sem bíða fram á vorið eftir að pörun hefjist.

Matvælastofnun hefur gert áætlun um reglubundnar sýnatökur í vetur á öllum minkabúum. Auk þess verða starfsmenn minkabúa skimaðir samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis. Þá hefur Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið fyrirskipað hertar sóttvarnir á minkabúunum samkvæmt tillögu Matvælastofnunar.

Í þeim felast hertar kröfur um persónulegar sóttvarnir starfsmanna, flutningur lifandi minka verður óheimill og ónauðsynlegar heimsóknir í minkahús bannaðar. Einnig verður sýningahald með minka bannað og því verða minkarnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík ekki til sýnis á opnunartíma garðsins.