Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Eins og þeir sjái hlutina ekki í raunhæfu ljósi“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Alma Möller, landlæknir, segist ekki hafa kynnt sér vef hópsins Út úr kófinu sem tveir þingmenn, Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson, standa meðal annars að. Hún mótmælti þó því sem lesið var upp fyrir hana af vef hópsins á upplýsingafundinum í dag. Þórólfur Guðnason sagðist ekki hafa kynnt sér stefnu hópsins en hefði fylgst með skoðun þessara þingmanna og væri þeim algjörlega ósammála. „Mér finnst eins og þeir sjái ekki hlutina í raunhæfu ljósi.“

Vefurinn kofid.is leit dagsins ljós í gær en að honum stendur „hópur fólks úr ýmsum geirum samfélagsins“ sem segist vilja leggja sitt af mörkum „til að bæta upplýsingagjöf um kórónuveirufaraldurinn, afleiðingar og aðgerðir.“

Í þessum hópi eru meðal annars tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins; Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson. Þau hafa bæði lýst efasemdum sínum um ágæti þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til.

Bæði sóttvarnalæknir og landlæknir voru spurð um stefnu hópsins á upplýsingafundinum í dag. Lesin var upp klausa af vef hópsins þar sem segir meðal annars: „Þær aðgerðir sem hingað til hefur verið beitt gefa til kynna að nánast eina markmið stjórnvalda sé að hægja á útbreiðslu eins tiltekins sjúkdóms. Allt annað víki fyrir þessu markmiði.“ Þá var einnig vitnað til orða Sigríðar á mbl.is um að það lægi fyrir að kórónuveirufaraldurinn væri engin drepsótt.

Alma Möller mótmælti þessum málatilbúnaði og sagði einmitt margt hafa verið tekin inn í myndina. Lærdómur hefði verið dreginn af fyrstu bylgjunni og mörgu haldið gangandi í þriðju bylgjunni. „Við teljum að það sé skynsamlegt að halda faraldrinum niðri, það hafi best áhrif á lýðheilsu, heilsu og efnahag. Að bíða eftir bóluefni og halda þetta út.“

Þórólfur Guðnason sagðist ekki hafa kynnt sér stefnu þessa hóps en hann hefði fylgst með skoðunum þingmannanna tveggja. „Ég er algjörlega ósammála þeim. Mér finnst eins og þeir sjá hlutina ekki í raunhæfu ljósi og það væri kannski ágætt ef þeir færu inn á sjúkrahús og hittu sjúklinga sem hafa verið að berjast við þennan sjúkdóm.“

Hann myndi líka vilja benda á það sem aðrar þjóðir væru að gera.  Í mörgum tilfellum væru þær að grípa til mun harðari aðgerða en Ísland. Hann hefði enga trú á að svona margir hefðu svona ranga skoðun.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV