Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Daði Freyr gerir það gott erlendis og fleira gott

Mynd: Barnamenningarhátíð / .

Daði Freyr gerir það gott erlendis og fleira gott

19.11.2020 - 15:55

Höfundar

Að venju er af nógu að taka í útgáfu íslenskrar tónlistar á þessum tíma árs, þegar það styttist í að jólalagaholskeflan hellist yfir landsmenn. Það eru þó ekki jólalög í boði í Undiröldu kvöldsins heldur fáum við nýja endurhljóðblöndun frá Daða Frey, franska stemmningu frá Unni Söru Eldjárn, rómantískt stuðlag frá Geir Ólafs og ný lög frá Salóme Katrínu, Magnúsi Jóhanni, Daníel Hjálmtýssyni og Magnúsi Þór.

Millie Turner, Daði Freyr - Eye of the Storm

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr er búinn að gera gott mót í ár, þrátt fyrir að hafa misst af sigrinum í Eurovision vegna plágunnar. Nú er hann kominn í endurhljóðblöndunargírinn með tónlistarkonunni Millie Turner og daðar lag hennar Eye of the Storm í drasl.


Unnur Sara Eldjárn - Zou Bisou Bisou

Lagið Zou Bisou Bisou var upphaflega á ensku og náði vinsældum árið 1960 með Gillian Hills, sem flutti það á frönsku. Það sló aftur í gegn í sjónvarpsþáttunum Mad Men árið 2012, þar sem ein af aðalpersónunum söng lagið. Unnur Sara Eldjárn söng þetta lag ásamt hljómsveit og gaf út núna í september 2020. Lagið verður á nýrri plötu Unnar sem kemur út árið 2021 með frönskum ábreiðum frá sjöunda áratugnum.


Geir Ólafs - Rauða rósin

Það eru komin tvö ár frá síðustu breiðskífu Geirs Ólafssonar, Þú ert yndið mitt yngsta og besta, en hann hefur undanfarið sent frá sér lag og lag sem verða kannski á næstu plötu. Nú sendir hann frá sér rómantíska stuðlagið Rauða rósin þar sem Geir er með einvalalið hljóðfæraleikara með sér og bakraddir frá Rokkkór Íslands.


Salóme Katrín - Water

Á morgun kemur út fyrsta þröngskífa ísfirsku tónlistarkonunnar Salóme Katrínar á streymisveitum sem og vinyl. Gripurinn fékk nafnið Water og samanstendur af fimm fyrstu lögunum sem Salóme Katrín samdi, en að hennar sögn er titillagið Water í miklu uppáhaldi.


Magnús Jóhann - Waiting

Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann hefur sent frá sér plötuna Without Listening en hann hefur unnið með fremsta tónlistarfólki landsins eins og til dæmis Moses Hightower, GDRN, Auður, Flóna og fleiri undanfarin ár auk þess að fikta við kvikmyndatónlist. Tónlistina á plötu Magnúsar Jóhanns væri líklega best að staðsetja í hillunni djössuð nútímaklassík við eldamennskuna á afslöppuðum sunnudegi.


Daníel Hjálmtýsson - Withered

Withered er þriðja lagið af samnefndri þröngskífu Daníels Hjálmtýssonar, sem er jafnframt hans fyrsta. Þröngskífan kemur út föstudaginn 20. nóvember. Um upptökur og hljóðblöndun sá Jóhannes Birgir Pálmason auk þess að forrita, en um hljómjöfnun sá bandaríski tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Alain Johannes.


Magnús Þór - Höfrungastúlkan

Lagið Höfrungastúlkan á sér langa sögu og er af persónulegri gerðinni en Magnús Þór tileinkar það minningu Önnu Benný sem var að hans sögn kær vinkona hans árið 1981 þegar hann hóf störf á Deild 32C Landspítala, á erfiðum tíma í hans lífi.