Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætti ekki að hika við að verja höfnina á Flateyri

Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Heildartjón vegna skemmda sem urðu á höfninni á Flateyri við snjóflóð sem féllu þar í janúar er á annað hundrað milljónir. Hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar segir brýna þörf á að verja höfnina fyrir snjóflóðum.

Tjón Ísafjarðarhafnar eftir snjóflóðin í janúar er 22,5 milljónir, þar af voru 11,3 ekki bættar af tryggingum. Heildartjón er þó öllu meira, eða á annað hundrað milljónir, sé tjón einstaklinga, fyrirtækja og tryggingarfélaga þeirra talið með. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt var hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar í gær. 

Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri, segir tiltekt og uppbyggingu eftir flóðin hafa verið viðameiri og dýrari en hann bjóst við. 

„En samt náðum við þó að bjarga því þannig að á vordögum var höfnin þannig orðin brúkleg að útgerð var með eðlilegum hætti í sumar frá Flateyri,“ segir hann. 

Aðvörunarljós sett upp á hafnarsvæðinu

Höfnin sé nú í góðu standi go ekkert sem standi út af í endurbyggingu. Næsta verk sé að bæta öryggi.

„Í þessum töluðu orðum er verið að setja upp aðvörunarljós, aðvörunarbúnað á hafnarsvæðinu á Flateyri.“

Ljósin veðra að öllum líkindum komin í gagnið í næstu viku og verður stjórnað af Almannavörnum, Þau eigi að vera til marks um lokun hafnarinnar vegna hættuástands. Guðmundur segir ljósin þó ekki duga til. Þörf sé á að verja höfnina fyrir snjóflóðum. 

„Ég held að þetta sé ekki verkefni af þeirri stærðargráðu að það ætti að hika við að fara í almennileg varnarmannvirki fyrir hafnarsvæðið. Það er búið að sýna sig að hættan er fyrir hendi og hún er raunveruleg.“