Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vinsælasta lykilorðið á internetinu er 123456

18.11.2020 - 17:52
epa07294580 (FILE) - ILLUSTRATION - A person sits in front of a computer screen in Moers, Germany, 04 January 2019 (reissued 19 Jauary 2019). Media reports on 17 January 2019 state that a record with numerous stolen user data has been published on the Internet. The collection named Collection #1 contained almost 773 million different email addresses, more than 21 million different passwords and more than a billion combinations of credentials, according to a Australian IT security expert. Internet users shall be affected worldwide.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Talnarunan 123456 er vinsælasta lykilorð netverja ef marka má úttekt fyrirtækisins NordPass sem rekur umsýsluforrit fyrir lykilorð. Þessi einfalda talnaruna hefur verið afhjúpuð sem lykilorð netverja meira en 20 milljón sinnum.

Nýverið var greint frá því að hollenskum sérfræðingi í netöryggismálum hafi tekist að brjótast inn í Twitter-reikning Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, einfaldlega með því að giska á lykilorðið. Það var enda einfalt og forsetanum tamt – maga2020! – skammstöfunin fyrir Make America Great Again 2020.

Öflugt lykilorð getur verið góð vörn fyrir svikum og þjófnaði á netinu. Margar þjónustur skylda til dæmis notendur sína til þess að hafa bæði hástafi og tölustafi í lykilorðum sínum.

Á meðal 200 vinsælustu lykilorðanna eru einfaldar talnarunur, lengri og styttri en hér að ofan, enska hugtakið yfir lykilorð – password – og önnur einföld og misgáfuleg hugtök.

NordPass stillti upp lista yfir vinsælustu lykilorðin með því að rýna í gögn sem lekið hefur verið. Listanum er raða eftir því hversu oft einstakur stengur bókstafa og tölustafa kemur fyrir. Þá er einnig reiknaður sá tími sem það tekur tölvu að uppgötva lykilorð og aflæsa reikningum. Lykilorðið 123456 tekur til að mynda innan við eina sekúndu að finna.