Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill að forsætisráðuneytið kanni aðbúnað á vistheimilum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna og fyrsti varaformaður velferðarnefndar Alþingis telur eðlilegt að forsætisráðuneytið fari með rannsókn á aðbúnaði á vistheimilum vegna umfangs og reynslu ráðuneytisins af sambærilegum verkefnum.

Formaður velferðarnefndarinnar  telur eðlilegt að hún sé á forræði þingsins. Geðhjálp og Þroskahjálp hafa farið fram á við velferðarnefnd Alþingis að slík rannsókn verði gerð á aðbúnaði síðastliðin 80 ár. Þverpólitísk sátt er í nefndinni um að ráðast í rannsókn en ágreiningur er um hver eigi að fara með hana. 

Ólafur sagði að forsætisráðherra hefði mjög góða og mikla reynslu af vinnslu sambærilegra mála og nefndi þar Breiðavíkurmálið, Kópavogshæli, Kumbaravog og Heyrnleysingjaskólann. „Ráðuneytið hefur fylgt þessum málum eftir á mjög myndarlegan hátt að mínu mati og ég held að það sé best til þess fallið að hafa þá yfirsýn sem þarf.“

En er ekki eðlilegt að þetta sé á forræði þingsins? „Þingið fær þessa beiðni og skoðar hana í þau skipti sem það hafa verið rannsóknarnefndir þá hafa þær oftast verið snúist um mál sem hafa verið tengd þá fjármálafyrirtækjum eða fjármálum mér finnst málið eðlisólíkt en ég vona auðvitað að nefndin komist að sameiginlegri niðurstöðu í málinu og finni lendingu sem allir geta verið sammála um.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV