Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja friðlýsa stóran hluta Langaness

18.11.2020 - 20:07
Sveitarstjórn Langanesbyggðar kannar nú möguleika þess að friðlýsa utanvert Langanes. Þannig mætti vernda menningar- og náttúruminjar, miðla upplýsingum betur en nú er gert og bæta aðgengi að helstu náttúruperlum.

Það var í upphafi árs sem farið var að kanna möguleika þess að friðlýsa Langanes. Afrakstur þeirrar vinnu er ítarleg úttekt sem nú liggur fyrir um þá möguleika sem felast í friðun. Það er utanvert Langanes sem rætt er um að friðlýsa, frá Heiðarfjalli og alveg út á Font. 

Framtíðarkynslóðir geti notið Langaness eins og það er

„Þetta er náttúrulega hugsað fyrir framtíðina, framtíðarkynslóðir. Að þær hafi aðgang að þessu svæði eins og það er,“ segir Jónas Egilsson, sveitarstjóri í Langanesbyggð. „Þetta er merkilegt út frá náttúrunni séð, fjölbreytt fuglalíf mjög svo og jafnvel gróðurfar. Þetta er tiltölulega óspillt svæði og þarna eru bara tækifæri fyrir framtíðina.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson

Mikilvægt að áfram verði bæði hægt að nýta og njóta

Þrátt fyrir friðlýsingu segir Jónas mikilvægt að á Langanesi verði áfram bæði hægt að nýta og njóta. Þar er mikil náttúrufegurð og þekkt örnefni og sögustaðir. Vilji er til að bæta aðgengi að áhugaverðum stöðum og auka og bæta upplýsingamiðlun. Talsverð ferðaþjónusta er á Langanesi og nesið er einnig mikil matarkista og eggjatekja hefur verið stunduð þar í áratugi. Þannig sjálfbær nýting segir hann að falli vel að hugmyndum um friðun. „Og það verður áfram og það á ekki að breytast,“ segir hann.

Ítarleg kynning framundan

En það sé hægt að velja mörg stig friðunar, alveg frá fólkvangi upp í að gera svæðið að þjóðgarði. Nú þurfi að skoða vel alla möguleika og kosti og galla hvers stigs fyrir sig. „Það er eitthvað sem kemur til kasta sveitarstjórnar og meðal íbúa. Við munum kynna þessar tillögur vandlega fyrir íbúum og fyrir landeigendum að sjálfsögðu líka,“ segir Jónas.

Gætu tekið stefnumótandi ákvörðun á næsta ári

Hann áætlar að héðan í frá taki um tólf mánuði að kynna þetta í samfélaginu og komast að niðurstöðu. „En ég á von á því að það geti gerst á næsta ári að við tökum stefnumótandi ákvörðun í þessu máli.“