Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umboðsmaður Sigur Rósar harðorður í garð stjórnvalda

18.11.2020 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Dean O'Connor, umboðsmaður Sigur Rósar, segir að liðsmönnum sveitarinnar hafi aldrei liðið eins og framlag þeirra væri metið að verðleikum á Íslandi. „Þeir hafa gert svo mikið til að kynna landið síðustu 20 ár, það sér hver maður. Ég held að yfirvöld myndu ekki sækja svona hart fram ef þau kynnu að meta það sem sveitin hefur gert.“ Yfirvöld vilji gera mál Sigur Rósar að fordæmi og líti þannig á að ef þeir náist ættu allir að vera á varðbergi.

Þetta kemur fram í viðtali við O'Connor sem birtist á vef Music Buisness Worlwide. 

Þar skellir hann skuldinni alfarið á endurskoðanda sveitarinnar sem hann telur að hafi ekki skilið það sem hann þurfti að skilja. Hann segir Sigur Rós hafa frá upphafi verið rekið sem alþjóðlegt fyrirtæki og aldrei lent í neinum vandræðum erlendis. „Því miður tala ég ekki íslensku og enginn af þeim sem vinna í kringum hljómsveitina gerir það heldur.  Þannig að þeir urðu að treysta á fagaðila sem höfðu ekki þá reynslu sem þurfti til.“ Þeir hafi viljað vera trúir sínu heimalandi og borga sína skatta þar og því hafi öll þeirra viðskipti farið um Ísland. 

O'Connor segir að verði íslenskum lögum ekki breytt þar til mál Sigur Rósar fer fyrir dóm séu góðar líkur á því að þeir verði sakfelldir.  Hljómsveitin muni þó alltaf áfrýja þeim dómi.  „Sektirnar sem þeir gætu fengið eru svimandi háar og ekki eitthvað sem þeir gætu bara borgað eins og ekkert væri. Þeir þyrftu væntanlega að selja heimili sín.“

Hann ráðleggur umboðsmönnum að vera ekki með rekstur hljómsveita í litlum löndum eins og Íslandi.  „Ef það voru einhver mistök sem ég gerði þá var það að hafa ekki gert það fyrr.“ Síðustu fimm árum hafi farið í að færa rekstur sveitarinnar frá Íslandi þar sem það hafi verið talið öruggara. „Yfirsýnin er meiri, þekkingin er meiri og það er miklu auðveldara að reka fyrirtæki þannig, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða Bretlandi.“

Liðsmenn Sigur Rósar sendu frá sér yfirlýsingu í síðasta mánuði þar sem þeir hvöttu íslensk stjórnvöld til að taka skattalögin til endurskoðunar. Þau væru ósanngjörn og grimmileg og til skammar fyrir Ísland. Þeir neita að hafa meðvitað skotið undan skatti. 

Bæði núverandi og fyrrverandi liðsmenn sveitarinnar eru ákærðir fyrir að telja ekki fram tekjur eða arðgreiðslur fyrir um 150 milljónir króna.  Þá er Jón Þór Birgisson, söngvari sveitarinnar, ákærður fyrir skattsvik í tengslum við samlagsfélagið Frakk. Þau brot nema samkvæmt ákæru 146 milljónum króna. 

Héraðsdómur vísaði máli þeirra frá en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi og gerði dómstólnum að taka málið til efnismeðferðar. Búist er við að aðalmeðferð verði í byrjun næsta árs.