Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrettán andlát eru rakin til Landakots

18.11.2020 - 20:11
Sjúklingur lést síðastliðinn sólarhring af völdum COVID-19. Tuttugu og sex hafa því látist hér á landi, þar af 13 sem rekja má til hópsýkingarinnar á Landakoti. 

11 greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær af 961 sýni sem var tekið. Tveir þessara 11 voru ekki í sóttkví. Nýgengi innanlands er nú komið í rúmlega 56 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur, og er það með því lægsta í Evrópu. Fjórir greindust með veiruna við skimun á landamærunum og er beðið eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu hjá þeim öllum.

Einn sjúklingur lést af völdum COVID-19 á Landspítalanum síðasta sólarhring. Alls hafa nú 26 látist í farsóttinni, þar af 16 í þriðju bylgju faraldursins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var sá sem lést á Landspítalanum á níræðisaldri, og rekja má andlátið til hópsýkingarinnar á Landakoti. Alls hafa nú þrettán manns látist í kjölfar hópsýkingarinnar þar.

Alls eru nú 55 á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af fjórir á gjörgæslu.

Veiran hefur stungið sér niður á Austurlandi sem var til þessa smitlaust. Bílstjóri skólabíls greindist smitaður í gær og skólahaldi var af þeim sökum aflýst í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla í dag. Um 30 börn sem voru í skólabílnum fyrir helgi eru í sóttkví, auk nokkurra starfsmanna í mötuneytum skólanna.