Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Það borðar enginn í Kringlunni í Alþingi“

Mynd: Samsett mynd / RÚV

„Það borðar enginn í Kringlunni í Alþingi“

18.11.2020 - 13:34

Höfundar

Svanhildur Hólm, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, segir af og frá að aðstoðarmenn séu með talhólf eins og Hrefna í Ráðherranum. Enn fremur myndi ekki nokkur þingmaður láta grípa sig að snæðingi í Kringlunni, setustofu Alþingis, eins og formaður Framsóknarflokksins geri. Þrátt fyrir slík smáatriði naut hún þess að horfa á Ráðherrann líkt og aðrir gestir Lestarklefans.

Margir Íslendingar fylgdust spenntir með lokaþætti Ráðherrans sem sýndur var sunnudagskvöldið 8. nóvember. Þá kom loks í ljós hvernig fór fyrir Benedikt Ríkharðssyni, forsætisráðherra Íslands, eftir vægast sagt skrautlegar vikur í æðsta embætti Alþingis. Benedikt er óhefðbundinn stjórnmálamaður, guðfræðingur og háskólakennari sem verður formaður Sjálfstæðisflokksins og verður í kjölfarið forsætisráðherra. Eftir nokkra mánuði í embætti fer að bera á andlegum veikindum hans og þá þarf samstarfsfólk og hans nánustu að leggja allt að veði til að halda veikindum hans leyndum fyrir þjóðinni. Handrit þáttanna skrifuðu þau Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson. Leikstjórn var í höndum þeirra Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarssonar. Gestir Lestarklefans þau Ásgeir H. Ingólfsson blaðamaður, Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi og Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri, horfðu á þættina og sögðu sitt álit.

Heilt yfir nokkuð sátt

Svanhildur segir að fyrsti þátturinn hafi lofað mjög góðu en eftir þriðja og fjórða þátt átti hún erfitt með að halda sér við efnið. „Ég fann að ég var farin að kíkja á símann og svo eftir þriðja þátt gleymdi ég seríunni í nokkrar vikur,“ segir Svanhildur. Hún sá fljótt að margir í kringum hana voru að tala um þáttinn og hve spennandi hann væri orðinn og þá ákvað hún að geyma seríuna og horfa á síðustu fimm þættina í einni beit. „Ég sá eiginlega ekki eftir þeirri ákvörðun því þarna í fjórða og fimmta þætti breyttist tempóið, hlutirnir fóru að gerast og þættirnir urðu þannig að mann langaði að horfa á þann næsta strax eftir að þátturinn kláraðist. Ég held að heilt yfir hafi ég verið nokkuð sátt.“

Þorvaldur Davíð eins og Loki í goðafræðunum

Ásgeir er sammála því að eftir góða fyrstu tvo þættina hafi þættirnir tekið dýfu en tekið við sér aftur í fimmta þætti og stigmagnast eftir það. Honum leiddist aðeins þegar Ólafur Darri í hlutverki ráðherrans var ekki á skjánum. „Svo kom hann aftur og þá var gaman,“ segir hann. Aðrir karakterar heilluðu hann þó líka þegar á leið, ekki síst Grímur sem Þorvaldur Davíð leikur. „Hann fer hægt og rólega þegar líður á seríu að taka völdin sem vondi kallinn, þessi tungulipri djöfull. Pínu eins og Loki í goðafræðunum stundum.“

Er pólitík svona?

Brynhildur segir að það hafi verið gaman að fylgjast með þáttunum en það pirraði hana að enginn hafi áttað sig á því að Benedikt ætti við geðræn vandamál að stríða fyrr en það var upplýst og að það hafi þótt mikið mál. „Auðvitað er alvarlegt þegar forsætisráðherra er í gífurlegri maníu og tekur ruglaðar ákvarðanir, auðvitað þarf að grípa í taumana,“ segir hún. „En mér fannst ótrúverðugt í nútímasamfélagi að það kæmi öllum í opna skjöldu.“

Hún varð líka forvitin að vita hvort pólitík væri í raun jafn æsileg og hún birtist í þáttunum. „Er þetta svona? Er Þorvaldur Davíð í klækjabrögðum allan daginn og það er það eina sem hún hugsar um?“ spyr hún og hvetur Svanhildi, sem var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar til að gefa nánari innsýn í það.

Enginn borðar í kringlunni

Hún kveður svo ekki vera. „Mér finnst rosalega leiðinlegt að eyðileggja fyrir fólki en ég held að það eigi við alls staðar að pólitík er miklu minna spennandi en maður sér í sjónvarpinu. Þetta er bara venjuleg vinna og rosalega margir fundir,“ segir hún. Sumt fannst henni svo langt frá raunveruleikanum að hún leyfði því að fara í taugarnar á sér. „Þetta bráðabirgðalagadæmi fannst mér náttúrulega alveg út úr kortinu en svo eru litlir hlutir eins og hvaða aðstoðarmaður er með talhólf? Ég skildi það ekki.“

Þegar Svanhildur sagði eiginmanninum Loga Bergmanni Eiðssyni frá þessari hneykslan sinni svaraði hann: „Núna ertu komin út í smáatriði,“ og hún viðurkennir að hann hafi eflaust rétt fyrir sér. Sjálf var hún aldrei með talhólf sem aðstoðarmaður ráðherra. Hún segir enn fremur að enginn rísi úr sæti þó forsætisráðherra gangi inn og út úr herbergi. „Og formaður Framsóknarflokksins að borða í Kringlunni, ég ætlaði ekki að ná mér af hneykslinu. Það borðar enginn í Kringlunni,“ segir hún.

Fyrir utan þessi smáatriði segist henni hafa tekist að horfa á þættina og njóta sögunnar og hugmyndaauðginnar enda hafi verið nóg af henni. Hún heillaðist líka af Þorvaldi Davíð í hlutverki illmennis. „Hann var geggjaður sem vondi karlinn,“ segir hún. „Mér fannst Þorvaldur Davíð ná að skína í gegnum andstyggilegheitin og allar bakstungurnar.“

Ólafur Darri, bara vá

Brynhildur var líka hrifin af Þorvaldi Davíð í sínu hlutverki, Þuríði Blævi og Anítu Briem sömuleiðis. Mest heillaðist hún þó af Ólafi Darra. „Þau voru öll mjög góð en Ólafur Darri, maður fær smá bara svona: Vá.“

Svanhildur er sammála því. „Mér fannst Ólafur Darri alveg frábær í þessu og ég veit að þeir sem mögulega þekkja betur til geðrænna sjúkdóma en ég hafa kannski eitthvað að athuga við framsetninguna á því hvernig hann þróaðist í sínum geðsjúkdómi,“ segir hún sem fannst hann rosalega trúverðugur. Ekki síst í lokasenunni.

Öfgafull geðveiki í lagi í list

Brynhildur kveðst hafa séð einhverja gagnrýni um hvernig geðhvörf Ólafs Darra birtust í þáttunum. „Ég skil hana að vissu leyti en geðsjúkdómar eru alls konar og það er til fólk sem fer í gríðarlega maníu og getur hegðað sér svona þó það séu ekki hin týpísku einkenni,“ segir hún. Listin eigi ekki alltaf að sýna það sem þyki pólitískt kórrétt. „Má hún aðeins fara út í öfgar? Væri gaman að horfa á sjónvarpsþætti sem væru ekki öfgafullir?“ Svanhildur fullyrðir að þá væru pólitískir þættir að minnsta kosti mjög leiðinlegir.

Forsætisráðherrann afhjúpar umhverfi sitt

Ásgeir segir að maður yrði ábyggilega fljótt pirraður ef maður teldi sig vera að horfa á pólitíska stúdíu um geðveiki en það eru þættirnir ekki. „Ég held það sé meira sótt í gamla bókmenntahefð sem felst í að nota þann geðveika til að afhjúpa veruleikann,“ segir Ásgeir. „Þegar forsætisráðherrann fer úr handritinu verða allir rosalega asnalegir og vita ekki hvað þeir eiga að gera. Með sinni geðveiki er hann að afhjúpa rosalega mikið sem er að í þessu þjóðfélagi. Það er grunnpælingin um hvernig geðveikin er notuð í svona list.“

Hér er hægt að horfa á Ráðherrann í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Maður getur ekki verið algjörlega með Benedikt í liði“

Menningarefni

Áhugaverðar staðreyndir Ráðherrans

Sjónvarp

4 atriði í Ráðherranum sem gátu orðið kynlífsatriði