Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Stærsta sveitarfélag landsins á ekki að gera svona“

18.11.2020 - 22:28
Mynd: Skjáskot / RÚV
Reykjavíkurborg hefur krafið ríkið um 8,7 milljarða króna vegna vangoldinna framlaga úr jöfnunarsjóði. Sveitarstjórnarráðherra segir kröfuna beinast gegn öðrum sveitarfélögum og að ekki komi til greina að ganga að kröfum borgarinnar.

Borgarlögmaður sendi bréf á fjármálaráðuneytið í desember í fyrra þar sem fram kom að borgin hefði verið útilokuð með ólögmætum hætti frá því að hljóta ákveðin framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Því krefðist Reykjavíkurborg þess að íslenska ríkið myndi greiða borginni fjárhæð sem nemur jöfnunarframlögum vegna reksturs grunnskóla og framlögum til nýbúafræðslu árin 2015 til 2019. Ríkið hafnaði kröfunni en fyrir tveimur vikum barst ríkislögmanni ítrekunarbréf frá borginni.

„Mér finnst hún mjög ósanngjörn og ekki skynsamleg þar sem krafan beinist í raun gegn öðrum sveitarfélögum á landinu og stærsta sveitarfélag landsins á einfaldlega ekki að gera svona,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður segir að ítrekunarbréfið hafi komið sér á óvart. Hann átti von á að krafan yrði dregin til baka eftir að hafa tekið málið upp við borgarstjóra. Hann segir að þrátt fyrir að kröfunni sé beint gegn ríkissjóði myndi þurfa að greiða fjárhæðina úr jöfnunarsjóði. Ekki komi til greina að ganga að kröfum borgarinnar og fer málið því fyrir dóm að óbreyttu.

„Til að mynda í dómsmáli sem er nýlega gengið þá er það jöfnunarsjóður sjálfur sem þarf að greiða og þau sveitarfélög sem teljast hafa fengið ofgreitt þurfa að greiða til baka. Ef þessi krafa gengi eftir þá yrðu það öll önnur sveitarfélög sem myndu þurfa að líða fyrir það með lægri framlögum,“ segir hann.

Reykjavíkurborg telur ótækt að fá ekki krónu úr jöfnunarsjóði fyrir kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál eins og önnur sveitarfélög fá. Sigurður gefur hins vegar lítið fyrir rökstuðning borgarinnar fyrir kröfunni.

„Ég er til í viðræður um framtíðina og endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs. Ég tala nú ekki um eftir endurskipulagningu sveitarstjórnarstigsins en að fara að sækja aftur í tímann kröfur sem bitna síðan á öðrum sveitarfélögum kippir grundvellinum undan jöfnunarsjóðnum.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV