Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sjóvá hlýtur hvatningarverðlaun jafnréttismála

18.11.2020 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: SA - Skjáskot
Sjóvá hlaut hvatningarverðlaun jafnréttismála á fjarfundi um jafnréttismál í morgun. Pink Iceland fékk sérstök sprotaverðlaun. Að verðlaununum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti verðlaunin. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Sjóvá hafi sýnt það að mannréttindi séu mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Á hverju ári séu skilgreindar markvissar aðgerðir í jafnréttismálum sem byggja á mannréttindastefnu fyrirtækisins. 

Fyrirtækið hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll með skýrri stefnu og skipulegum ákvörðunum um ráðningar.

Þar segir jafnframt að stjórnendur séu sannfærðir um að áhersla á jafnrétti skili rekstrarlegum ávinningi og þau horfa á jafnréttismál sem hluta af aðgerðum til þess að auka arðsemi fyrirtækisins Þar segir jafnframt að Sjóvá sýni mikið frumkvæði með því að bjóða upp á framlengingu fæðingarorlofs sem nemur sex vikum á 80% launum.

Hermann Björnsson, forstjóri og Ágústa Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs, tóku við verðlaununum.  Þau sögðu verðlaunin hvatningu til þess að gera enn betur.

Einnig var Pink Iceland veitt sérstök sprotaverðlaun. Það er eina ferða- og viðburðafyrirtæki landsins sem einblínir á þarfir og menningu hinsegin fólks, skilningur fyrirtækisins á jafnréttishugtakinu er víður og mannréttindastefna fyrirtækisins er skýr. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - SA
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV