Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Reistu sprengibúnað í Hlíðarfjall við erfiðar aðstæður

18.11.2020 - 14:48
Mynd: RÚV / RÚV
Sprengibúnaður sem framkallað getur snjóflóð var settur upp í Hlíðarfjalli í síðustu viku við gríðarlega krefjandi aðstæður. Með nýja búnaðinum geta starfsmenn sprengt niður snjóhengjur áður en þær verða hættulegar gestum.

Nýja lyftan mun flytja fólk á þekkt snjóflóðasvæði

Uppsetningu á nýrra stólalyftu í Hlíðarfjalli er lokið og verður hún opnuð almenningi í byrjun næsta árs. Von er á austurrískum sérfræðingum til að gera lokaúttekt á lyftunni og þá á eftir að setja upp lýsingu. Lyftan verður sú hæsta á Íslandi en það tekur um átta mínútur að fara með henni upp á svokallaða Fjallkonuhæð. Með tilkomu nýju lyftunnar verður fólk flutt í yfir 1000 metra hæð og á þekkt snjóflóðasvæði og við því á að bregðast. 

Geta komið af stað snjóflóði áður en það skapar hættu

„Við erum í samstarfi við Veðurstofuna með daglegt snjóflóðaeftirlit í fjallinu sem við birtum svo notendum okkar og ef að við teljum ástæðu til að bregðast við með einhverjum hætti þá getum við gert það. Annað hvort með snjótroðurum eða með því að nota sprengiefni til að koma af stað snjóflóðum áður en þau verða hættuleg. Þetta er svona mastur og ofan á því er kassi með tíu sprengjum sem við getum þá sprengt neðan úr húsi hjá okkur í gegnum tölvu,“ segir Stefán Gunnarsson, svæðisstjóri í Hlíðarfjalli. 

„Þetta var dálítið bras sko“

En það er meira en að segja það að steypa fyrir stóru mastri í yfir þúsund metra hæð. Starfsmenn í Hlíðarfjall fengu Köfunarþjónustuna til þess að bora fyrir mastrinu og sjá um steypuvinnu.

„Þetta var dálítið bras sko, við erum þarna í ellefu hundruð metra hæð og það þurfti að koma þarna náttúrulega bæði tækjum og mönnum upp. Þú ert í snarbröttu fjalllendi, það þarf að síga þarna niður að staðnum og láta steypuna svo gossa í rörum á eftir en þetta bara gaman.“

Þrátt fyrir faraldurinn er Stefán bjartsýnn á framhaldið og stefnir á að opna fjallið 17. desember. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV