Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Peningunum sé ekki deilt til þeirra sem þurfa þá ekki

Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka segir að Seðlabankinn og stjórnvöld séu á rangri leið. Hún segir að stór hluti þess fjármagns sem var sett  í umferð til að styðja við hagkerfið hafi runnið inn á fasteignamarkaðinn í stað þess að fara til fólks og fyrirtækja sem hafa lent í mesta tekjuáfallinu.

Seðlabanki ætti að hvetja fremur en letja ríkissjóð til að styðja við þá sem þurfa. Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti í morgun í 0,75% og hafa þeir aldrei verið lægri hér á landi. 

Kristrún var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi í kvöld.

„Margir geirar eru tekjustopp. Það er hrun í hagkerfinu. Ein leiðin til að bregðast við því er að auka fjármagn í umferð til skamms tíma vegna þess að við erum að reyna að dreifa áfallinu af ástandinu sem við erum nú í. Það er mjög erfitt að dreifa áfalli í rauntíma, á milli einstaklinga og fólks og þá er farin sú leið að setja umframpeninga í umferð. Forsendan fyrir því að það sé skynsamlegt er að þetta fjármagn fari hagvaxtahvetjandi fjárfestingar,“ sagði Kristrún.

Hún sagði að um 300 milljarðar króna hefðu verið prentaðar í seðlum . „Þetta eru peningar sem hafa vaxið umfram landsframleiðslu,“ sagði Kristrún. Hún sagði að um helmingur þessa fjár hefði farið inn á húsnæðislánamarkaðinn. 

Þeir sem standa betur fá peninga 

„Það er gígantískur markaðsbrestur til staðar í núverandi ástandi sem þýðir að kerfið lætur þá einstaklinga og þau fyrirtæki fá peninga í dag sem standa mun betur en restin af hópnum.“

Spurð hvort það væri ekki bankanna að gera það sem Seðlabankinn ætlaðist til; að þeir myndu lána fyrirtækjum sem nú væru í tímabundnu tekjustoppi peningana svaraði Kristrún að það færi eftir því hvernig litið væri á bankana. „Hvort þeir eigi að gegna hlutverki sem ríkið á að gegna  - sem er að hugsa um kerfið í heild sinni. Eða hvort bankar eigi að taka á sig að fara í hugsanlega áhættusamar lánveitingar, veita peningar til fyrirtækja sem geta hugsanlega ekki greitt til baka , sem kemur síðan niður á arðsemi þeirra. Aðalpunkturinn er að sú arðsemi bitnar beint á ríkissjóði vegna þess að ríkissjóður á stóran hluta af bankakerfinu,“ sagði Kristrún.

Gígantískur markaðsbrestur

Kristrún sagði að mörg þeirra fyrirtækja, sem nú væru í tímabundnu tekjustoppi, myndu lifa þetta ástand af og myndu skila þessum tekjum aftur til ríkissjóðs í formi umsvifa. 

Spurð hvort það væri ekki jákvætt að fá fjárfestingar í íbúðahúsnæði þar sem atvinnuvegafjárfesting væri að dragast saman svaraði Kristrún að svo væri. „Vandamálið er það að stærstur hluti af þessum peningum sem eru að fara inn á fasteignamarkaðinn eru ekki að fara í nýjar byggingar. Þær fara í húsnæði sem fólk bjó nú þegar í,“ sagði Kristrún.

Hún sagði þetta fé fara inn í hringrás á fasteignamarkaðinum og valda þannig hækkun á fasteignaverði. 

„Það er gígantískur markaðsbrestur bæði á fjármálamörkuðum og í raunhagkerfinu akkúrat núna,“ sagði Kristrún. Fólki væri meinað að verja fé eins og það gerði fyrir faraldurinn. „Það skiptir miklu máli að peningum sé ekki deilt til fólks sem þarf ekki á því að halda.“