Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leikskólabörnum haldið inni vegna svifryks

18.11.2020 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Styrkur svifryks við Grensásveg mældist 148 míkrógrömm á rúmmetra á hádegi í dag. Börnum á leikskólanum Álftaborg við Safamýri var haldið inni í dag vegna mengunar, í fyrsta skipti í vetur.

Hægur vindur og kuldi, þurrar götur og litlar líkur á úrkomu auka líkurnar á að styrkur svifryksins fari yfir svokölluð sólarhrings heilsuverndarmörk sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra, samkvæmt vef Reykjavíkurborgar.

 

Harpa Brynjarsdóttir, leikskólastjóri á Álftaborg, segir að þar sé alltaf grannt fylgst með styrk svifryks. „Við erum þannig staðsett, stórar umferðargötur eru skammt undan og við finnum líklega meira fyrir þessu en margir aðrir,“ segir Harpa.

Hún segir að þegar styrkurinn fari yfir viss mörk fari börnin ekki út og í dag hafi það verið ákveðið. „Sem betur fer þurfum við ekki að gera þetta oft, þetta er í fyrsta skiptið núna í vetur.“

 

Annars staðar í borginni mældist mikill styrkur á hádegi, samkvæmt vef Reykjavíkurborgar. Í mælistöð í Fjölskyldu- og húsdýragarði var klukkutímagildið 68,1 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Vesturbæjarlaug 61,7 míkrógrömm á rúmmetra.

Í mælistöð á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar var klukkustundargildið lægra, 41,1 míkrógrömm á rúmmetra en var hærra fyrr um morguninn.

Á vef borgarinnar er hvatt til þess að stilla notkun einkabílsins í hóf og þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn hvattir til að forðast útivist í nágrenni stórra umferðagatna.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir