Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Jólagjöfin í ár er gott sokkapar og ný brók“

18.11.2020 - 14:00
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Kaupmenn þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum og haga jólaverslun eftir samkomutakmörkunum. Feðgarnir Jón Ragnarsson og Ragnar Sverrisson voru á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Mikilvægt sé að rýmka opnunartíma í byrjun desember til að forðast mannmergð í jólaösinni.

Bregðast við með rýmri opnunartíma

Sama hver staðan verður í desember, fylgja hátíðarhöldunum alltaf meiri innkaup. Ljóst er að fáir eiga eftir að gera sér ferð til útlanda til þess að gera jólainnkaupin og því viðbúið að jólaverslun innanlands verði góð. Feðgarnir sem reka herrafataverslunina JMJ á Akureyri eru bjartsýnir á góða jólaverslun þrátt fyrir rólega byrjun. 

„Núna eftir mánaðamótin að þá fer landið svona að rísa í sambandi við verslun og viðskipti en alltaf verður fólk að passa sig þar til örugglega á næsta ári. En undanfarin ár hafa búðir verið opnar lengur eftir tíunda eða tólfta hérna á Akureyri en það kæmir mér ekki á óvart ef þetta er að leysa svona upp úr mánaðamótum að það þurfi að hafa búðir opnar svolítið lengur fram á kvöld, bara jafnvel fljótlega eftir mánaðamót. Til þess að veita betri þjónustu, þannig að fólk geti komið hérna, ekki allir á sama tíma heldur alveg til átta á kvöldin, eða eitthvað svoleiðis, og það sé þá ekki traffík heldur bara svona passlegt,“ segir Ragnar. 

Engir nýliðar í greininni

Hann segir árið hafa einkennst af vandræðum. „Á sunnudaginn kemur er ég búinn að vera hérna í 55 ár, svoleiðis að við erum ekki alveg nýliðar í þessu. En þetta ár sker sig úr, það byrjaði með stórhríðum og veseni og var illfært um allar trissur og svo í apríl þá hrundi öll verslun og voru nokkrir dagar sem var núll sala, sem gerist nú eiginlega aldrei en svo var sumarið aftur mjög gott og mikið um íslenskt ferðafólk. En svo aftur í þessari þriðju bylgju þá hefur svona minnkað og ekkert sérstakt, sko,“ segir Ragnar.

„Það eru allir fastir á skerinu“

Jón tekur undir með pabba sínum og segir árið hafa verið óvenjulegt. Hann segir samt að faraldurinn hafi líka haft jákvæð áhrif. „Það eru allir fastir á skerinu en þrátt fyrir það að partur af íslensku þjóðinni verslar inn fatnað erlendis þá höfum við nú alltaf slegið í það í okkar búðum að þú kemur inn og það er eins og þú sért að fara í sex til ellefu erlendar verslanir þar sem vöruúrvalið hjá okkur er fyrirmyndar á allan hátt.“  

Þannig að þetta er bara eins og að fara í gott moll í Boston að labba hérna inn? 

„Já, reyndar, þetta er eins og að fara í gott moll í Boston.“ 

„Menn komu oft hérna á Þorláksmessu og voru drukknir“

Ragnar segir að hér áður fyrr hafi jólaverslunin að stórum hluta farið fram á Þorláksmessu. Þá tíðkaðist það að fólk verslaði síðustu gjafirnar undir áhrifum áfengis. „Það var mjög mikið um það og það var svona leiðindasiður að menn komu oft hérna á Þorláksmessu og voru drukknir. Þá er ég að meina svona fyrir 50 árum og svo fór það nú minnkandi og sem betur fer. Eins og núna þá sést ekki vín á mönnum og það finnst mér vera mikill plús. En í eldgamladaga voru menn bara fullir við þetta svona seinustu klukkutímana.“ 

En hver er jólagjöfin í ár í þessu COVID-ástandi, er það kósí teppi og náttsloppur eða hvað haldið þið?

„Ég held að það sé gott sokkapar og ný brók í pakkann, segir Jón.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Verslunin JMJ stendur við Gránufélagsgötu