Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Græna iðnbyltingin fjölgar störfum og minnkar mengun

18.11.2020 - 05:43
epa05353065 A electric car from Tesla is being charged at a supercharger facility in Solli, Norway, 04 June 2016. These charging stations are built specifically for electric cars from Tesla and makes it possible to charge the car's large battery in a shorter period of time. Tesla are building super chargers along the main road in Norway and Europe. Reports 06 June 2015 state four leading Norway's political parties have tentatively agreed on a bill that will end the sales of fossil-fuel driven vehicles by 2025. Norway currently boasts the biggest number of electric vehicles with a total of 24 per cent of all vehicles on the road.  EPA/TORE MEEK NORWAY OUT
 Mynd: EPA - NTB Scanpix
Á Bretlandseyjum verður blátt bann lagt við sölu nýrra hreinræktaðra bensín eða díselbíla frá árinu 2030. Þetta er hluti af svokallaðri grænni iðnbyltingu sem Boris Johnson forsætisráðherra hefur lagt fram og kynnt.

Áætlunin gerir ráð fyrir að blendingsbílar verði þó ekki bannaðir. Ætlunin er að verja miklum fjármunum í undirbúning og þá uppbyggingu sem til þarf en gagnrýnendur segja fjárhæðirnar þó ekki nægilægar.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar fullyrða hins vegar að fyrirætlanirnar muni laða að sér miklar fjárfestingar úr einkageiranum. Ætlunin er að reisa stórt kjarnorkuver til að mæta orkuþörfinni, líkast til í Sizewell í Suffolk.

„Áætlun mín skapar, styður við og ver hundruð þúsunda grænna starfa,“ segir Boris Johnson forsætisráðherra og bætir við að með því náist markmiðið um kolefnislaust Bretland árið 2050. 

Miklar vonir eru bundnar við að uppbygging kjarnorkuversins muni skapa um tíu þúsund störf, til að mynda hjá Rolls-Royce en einnig mörgum öðrum fyrirtækjum. Í heildina gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að með grænu byltingunni muni verða til um 250 þúsund störf, einkum í norðurhluta Englands og í Wales.

Breskir bílaframleiðendur hafa varað við hraða og umfangi verkefnisins en talsmenn þess fullyrða að með því að knýja fram tæknibreytingar styrkist samkeppnisstaða framleiðandanna til muna.