Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðaþjónustan tekur fljótt við sér

18.11.2020 - 10:47
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Fregnir síðustu daga um að góður árangur hafi náðst hjá tveimur stórum lyfjafyrirtækjum í þróun bóluefnis hefur vakið þá von í brjósti margra að það sjái fyrir endann á Covid  faraldrinum og að líf komist í eðlilegt horf á vormánuðum. Spegillinn ræddi við Skarphéðinn Berg Steinarsson Ferðamálastjóra um horfurnar í ferðaþjónustunni.  

Ástandið í heimalöndum ferðalanga skiptir máli

„Við höfum náttúrulega á grundvelli þessara frétta væntingar um að bólusetningar hefjist upp úr áramótum. Auðvitað mun það taka einhvern tíma að ná svo mikilli bólusetningu á okkar mörkuðum að hún fari að hafa þau áhrif að fólk sé reiðubúið að ferðast. Það er ekki bara ástandið hér, heldur ástandið í heimalöndum ferðalanganna sem skiptir máli" segir Skarhéðinn Berg í samtali við Spegilinn. 

„Það er augljóst af þessum tölum að það er gert ráð fyrir að framleiða býsna mikið af bóluefni. Þegar það nær einhverri útbreiðslu mun það klárlega hafa þau áhrif  að ferðamenn verða tilbúnir til þess að koma hingað aftur. Vonandi verður það fyrir sumarið því sumarið er mikilvægasti tími ferðaþjónustunnar. Þó okkur hafi gengið vel að dreifa ferðaþjónustunni yfir árið að þá er það sumarið sem skiptir máli.“ 

Fyrirtækin verða tilbúin

Verða fyrirtækin tilbúin? 

„Já ég held að fyrirtækin verði almennt tilbúin. Auðvitað hafa þau gengið í gegnum býsna erfiða tíma á þessu ári, en miðað við þær upplýsingar sem við höfum þá hafa þau mörg náð að bregðast mjög skilvirkt við þessu ástandi. Tekjurnar hafa náttúrulega hrunið, en þau hafa náð að fylgja því eftir með því að lækka kostnað hjá sér. Ríkið hefur náttúrulega komið til aðstoðar varðandi launakostnaðinn. Það munar mikið um þetta þannig að þau hafa náð að verjast í rekstrinum með þeim hætti.“

Spár gera ráð fyrir helmingi færri ferðamönnum

„Skuldirnar hafa ekkert minnkað, kannski aukist í mörgum tilfellum. En það sem er kannski ekki alveg fyrirsjáanlegt er að afkastagetan í greininni miðast við það sem við höfðum fyrir Covid. Nú gera spár ráð fyrir því að þegar rætist úr þessu þá fáum við á árinu 2021 kannski helming af þeim ferðamönnum sem við höfðum fyrir Covid. Þá verður mikil umfram afkastageta í kerfinu. Hvernig fer með þessa umfram afkastagetu er eitthvað sem við vitum ekki hvernig verður. En hin hefðbundnu viðbrögð markaða eru veruleg verðlækkun.  Það er ekki víst að það henti ferðaþjónustufyrirtækjunum við þessar kringumstæður.“ 

Allt frosið eins og er

Eins og staðan er núna þegar við lítum út um gluggann á skrifstofunni inni yfir gömlu höfnina í Reykjavík að þá er eins og allt sé frosið? 

„Það er bara ekkert að gerast. Það er alveg rétt. Þetta er ágætis mælikvarði sem við höfum hér á Ferðamálastofu að fylgjast með umsvifunum í kringum hvalabátana. Þar er mikið líf allan ársins hring við venjulegar kringumstæður. Núna er ekkert að gerast. Það er ekki einn einasti maður og engir bátar að fara út.“ 

Fyrirsjáanleiki mikilvægur

Þú segir að framtíðin ráðist mikið af viðbrögðum hjá erlendum ferðamönnum í nágrannalöndum. Hver er ykkar afstaða til skimunar á landamærunum? 

„Ferðamálastofa hefur ekki neina sérstaka afstöðu í því máli. Þetta er sóttvarnarmál og afstaða ríkisstjórnarinnar er að það sé útgangspunkturinn. Það er mjög skiljanlegur útgangspunktur þegar þetta er með þessum hætti sem við höfum verið að upplifa bæði hér á Íslandi og öðrum löndum. Það sem að skiptir máli þó í þessu sambandi er að reyna að koma á einhverjum fyrirsjáanleika til þess að fyrirtæki getið undirbúið sig til viðspyrnu, til þess að koma sér af stað aftur.  Og til þess að notfæra sér þau tækifæri sem kunna að verða á næstu mánuðum þegar fer að rofa til.

Það er fyrirsjáanleiki sem skiptir svo miklu máli því að bókanir í ferðaþjónustu taka langan tíma, þurfa að byggjast upp yfir lengri tíma. Hið eiginlega bókunartímabil fyrir sumarið er að komast í gang um og upp úr áramótum. Þá er mikilvægt að erlendi ferðamaðurinn hafi þá trú að hann sjái fyrir að komast hingað til lands þegar hann ætlar sér koma í sumar.“ 

Bókanir ekki fastar í hendi

Það eru dálítið misvísandi fregnir af því hver svokölluð bókunarstaða fyrir næsta ár er. Hvernig er hún og hvað felst í þessu orði; bókunarstaða?  

„Bókunarstaða er sú frátekning sem viðskiptavinurinn er með gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjunum; gistingu, bílaleigu, hópferðum, flugi o.sv.frv.  Bókanir þurfa að byggjast upp yfir lengra tímabil. Hinn almenni ferðamaður bókar með 3-5 mánaða fyrirvara og alveg raunar fram að brottfarardegi.

Bókanir sem gerast fyrir þann tíma, þegar lengra er í brottför ferðamannsins, það er oft það sem ferðaskrifstofur hafa tekið frá. Ferðaskrifstofur eru oft að taka frá gistingu, afþreyingu o.sv.frv. í ferðaþjónustunni til að setja í framboð gagnvart ferðamanninum, sem fara svo í sölu með 3-5 mánaða fyrirvara. Þannig að mikið af þeim sem við köllum bókunum inn á sumarið 2021 eru svona  frátekningar. Þær skipta miklu máli, en það eru ekki endilega nöfn á bak við þær.“ 

Ekki alveg fast í hendi? 

„Nei, nei ekki fast í hendi, en þetta er mjög mikilvægur hluti. Það er alltaf svo og svo stór hluti af sölunni sem fer í gegnum ferðaskrifstofur og það þarf að gefa þeim ráðrúm til þess að búa til pakka til þess að geta staðið við sitt gagnvart sínum viðskiptavinum.“

Ferðaþjónustan tekur fljótt við sér 

Þegar hjólin fara að  snúast aftur. Gerist það hratt eða hægt? 

„Ég hef haft þá trú að þegar við erum búin að ná utan um þessa veirusýkingu og heimsfaraldur að þá muni þetta taka nokkuð fljótt við sér.  Ég held að það séu allar forsendur til þess. Afkastagetan er til staðar í ferðaþjónustunni. Það verður nægt framboð af flugsætum til landsins. Allar vísbendingar eru um það að það sé áhugi á Íslandi, að hann hafi lítið dofnað. Þannig að það er margt sem er hentugt við þessar kringumstæður varðandi ferðaþjónustulandið Ísland. 

Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að þetta fari tiltölulega hratt af stað. Um helmingur af okkar ferðamönnum kemur frá Evrópulöndum. Ég held að með því samstarfi sem er í Evrópu í bólusetningum og viðbrögðum við faraldrinum að þá verði Evrópumenn fyrstir til þess að koma hingað. Hversu lengi við þurfum að bíða eftir ferðamönnum frá öðrum heimsálfum mun ráða heilmiklu. En ef að það er þannig að t.d. Bandaríkjamenn verði fljótir til þá getur næsta ferðaþjónustusumar orðið mjög gott.“ 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV