
Fækkun í herafla Bandaríkjanna í Afganistan og Írak
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur löngum viðrað andstöðu sína við íhlutun Bandaríkjanna í málefni annarra ríkja. Jafnframt hefur hann ítrekað sagst vilja kalla bandarískt herlið heim.
Mitch McConnell leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings segir forsetann vera að gera mistök með ákvörðun sinni ásamt því sem hann vara hann við að gera afdrífaríkar breytingar í utanríkis- og varnarmálum svo skömmu fyrir forsetaskipti.
Ætlunin er að hermennirnir haldi heim fimm dögum fyrir embættistöku Joe Bidens þann 20. janúar næstkomandi. Chris Miller, sitjandi varnarmálaráðherra, segir ákvörðunina endurspegla þá stefnu Trumps að komast að ásættanlegri, ábyrgri og árangursríkri niðurstöðu varðandi átökin í Afganistan og Írak.
Bandarískt herlið hefur verið í Afganistan frá árinu 2001 eftir að sameiginlegt herlið kom Talíbönum frá völdum í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í september 2001.
Þúsundir bandarískra hermanna hafa ásamt fjölþjóðlegum hersveitum um árabil haft aðsetur í Írak í baráttunni gegn samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Joe Biden, tilvonandi forseti, segist löngu uppgefinn á langvinnum átökum í Afganistan en hann teldi nauðsynlegt að ljúka stríðinu af ábyrgð. Mikilvægt væri að því lyki þannig að Bandaríkjunum stafaði engin hætta af og að öruggt væri að bandarískt herlið þyrfti ekki að snúa aftur.