Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki gert ráð fyrir góðu sumri í ferðaþjónustu

18.11.2020 - 12:27
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir peningastefnunefnd Seðlabankans ekki gera ráð fyrir því að næsta sumar verði gott fyrir ferðaþjónustuna. Vextir bankans voru lækkaðir um 0,25 prósentustig í dag, til þess að mæta auknum samdrætti í efnahagslífinu.

Efnahagshorfur hafa farið versnandi, að mati bankans, sem spáir 8,5 prósenta samdrætti á þessu ári. Stýrivextir eru nú komnir niður í 0,75 prósent, og hafa aldrei verið lægri.

Óvissan um efnahagshorfur er mikil að mati bankans og þróun efnahagsmála ræðst að töluverðu leyti af framvindu farsóttarinnar og þróun bóluefnis. Ásgeir segir ljóst að staðan sé svartari en gert hafi verið ráð fyrir.

Gert er ráð fyrir að samdrátturinn haldi áfram á fyrri helmingi næsta árs og að efnahagurinn rétti úr kútnum á seinni hluta ársins 2021. Seinni bylgja kórónuveirufaraldursins hér á landi í haust dró úr viðspyrnu í efnahagslífinu, eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi ársins.

„Við erum núna að gera ráð fyrir því að við náum ekki næsta sumri í ferðaþjónustu, eins og við höfðum áður gert ráð fyrir,“ segir Ásgeir. „Við gerum ráð fyrir að við náum okkur upp á seinni hluta ársins. Það felur í sér meiri samdrátt sem við teljum okkur þurfa að bregðast við.“

Heildaratvinnuleysi í október var 11,1 prósent, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Ásgeir segir að hápunkti atvinnuleysis hér á landi ekki hafa verið náð. Haldið er í von um jákvæðar fréttir í baráttunni við farsóttina á næstu mánuðum.

„Nei, líklega ekki nei,“ segir Ásgeir spurður hvort toppi atvinnuleysis hafi verið náð. „Almennt séð eykst atvinnuleysi yfir vetrarmánuðina. En á sama tíma erum við að vona það að vitneskja um að bóluefni sé handan við hornið og lægri vextir verði til þess að fyrirtæki fari af stað, fjárfestar og frumkvöðlar, fari út í nýjar fjárfestingar og að störf skapist og hagkerfið taki við sér.“

Viðtalið við Ásgeir má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV