Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Byrjaði að taka súrkál á morgnana eins og lýsi

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Byrjaði að taka súrkál á morgnana eins og lýsi

18.11.2020 - 11:26

Höfundar

„Ég var sjálf mjög slæm í maganum og alltaf með einhver meltingarvandamál og verki. Ég var búin að prófa ýmislegt en datt í hug að fara prófa taka súrkál á morgnana bara eins og lýsi," segir Dagný Hermannsdóttir, súrkálsmeistari. Það reyndist vel og í framhaldinu fór hún að prófa sig áfram með súrkál.

Landinn heimsótti Dagnýju heim þar sem hún sýndi hvernig á að gera súrkál. Sjálf kynntist hún fyrst súrkáli árið 1984 en lærði ekki að meta það fyrr en fyrir nokkrum árum. Þá fór hún að prófa búa til sjálf. „Ég fór að troða þessu upp á alla í kringum mig, fór að gefa vinkonunum, mæta með í saumaklúbb og fjölskylduboðin og alls konar," segir Dagný. Segja má að líf hennar hafi snúist að miklu leyti um súrkál síðan en hún notar með flestum mat.

Hún fór fljótlega að halda námskeið í súrkálsgerð og fór svo að búa til og selja súrkál. Hún rekur nú ásamt eiginmanni sínum fyrirtækið Súrkál en þau framleiða á annan tug tegunda af súrkáli en vinna bara tvö í fyrirtækinu en fá góða hjálp frá ættingjum og vinum á álagspunktum. 

En hvað er eiginlega súrkál? „Súrkal er í rauninni gerjað grænmeti. Þá eru góðgerðar sem eru til staðar á grænmetinu. Það eru þeir sem sýra grænmetið. Þeir hakka í sig kolvetnin, éta sykurinn af grænmetinu og sýra það. Það tekur talsverðan tíma," segir Dagný. 

Hægt er að sýra alls kyns grænmeti. „Uppistaðan er oft kál en þarf ekkert endilega að vera það. Málið er bara að skera það niður og blanda við salt. Saltið hjálpar okkur að ná vökva úr kálinu. Það kemur líka í veg fyrir að það verði óæskilegar örverur sem fara að vaxa en aðalmálið er að þetta sé gott grænmeti og að það séu fullt af lifandi góðgerlum utan á því. Það eru gerlar hérna utan á en það eru líka alls konar sveppagró og miklugró og hvað þetta nú allt heitir sem við viljum ekki rækta upp," segir hún.