
Bóluefni Pfizer öruggt og með 95% virkni
Þetta kom fram í tilkynningu frá Pfizer. Þar segir að niðurstöður þriðja stigs prófana sýni að efnið komi í veg fyrir mild og alvarleg einkenni COVID-19 í 95% tilfella og í 94% tilfella hjá eldri einstaklingum, sem eru í meiri hættu á að þróa með sér alvarleg einkenni og önnur bóluefni sem eru í þróun hafa ekki reynst þeim hópi jafn vel.
Pfizer hefur í hyggju að sækja um neyðarleyfi hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu FDA til að hefja bólusetningar en aldrei áður hefur verið sótt um leyfi fyrir notkun bóluefnis á svo skömmum tíma síðan þróun þess hófst. Vanalega tekur þróun bóluefnis mörg ár.
„Þessar niðurstöður marka stórt skref í þessari sögulegu átta mánaða vegferð til að koma fram með bóluefni sem hjálpað getur í að binda enda á þennan erfiða faraldur,“ sagði Dr. Albert Bourla, framkvæmdastjóri Pfizer í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Fari svo að bandaríska lyfjaeftirlitið heimili notkun bóluefnisins segist fyrirtækið hafa bolmagn til að framleiða 50 milljón skammta fyrir lok árs og allt að því 1,3 milljarða fyrir lok þess næsta. Pfizer mun láta lyfjaeftirlitinu í té tveggja mánaða gögn úr öryggiskönnunum auk nákvæmra upplýsinga um framleiðsluferlið. Eftirlitið mun síðan gaumgæfa gögnin, meðal annars með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga. Þetta ferli gæti tekið nokkrar vikur.
Þessar niðurstöður eru í takt fyrir fyrri tilkynninga frá Pfizer og BioNtech þar sem fram kom að bóluefnið hefði meira en 90% virkni. Á mánudaginn greindi BioNtech frá niðurstöðum fyrri tilrauna sem sýndu fram á 94,5% virkni þess.
Alls tóku 44 þúsund manns þátt í tilraunum með bóluefnið og fékk helmingur þeirra efnið en hinn sprautu með saltvatni. Síðan var fylgst með því hversu margir fengu COVID-19.
Samkvæmt Pfizer er virkni efnisins sú sama, burtséð frá því hver uppruni fólks eða aldur er. Helstu aukaverkanir þess eru þreyta, sem 3,7% þátttakenda fann fyrir eftir að hafa fengið seinni skammtinn af bóluefninu. Um tvö prósent fann fyrir höfuðverkjum og aðrir sem efnið fengu fundu fyrir færri og minna alvarlegum aukaverkunum.
Hver einstaklingur þarf að fá tvo skammta efnisins til að það virki. Bóluefnið þarf að geyma í frysti í allt að fimm daga eða í fimmtán daga í sérstökum kæliboxum með þurrís.