Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkin: Stjórnvald getur skipað aðra kjörmenn

epa08779445 Supporters of both US President Donald J. Trump and Democratic presidential nominee Joe Biden gather outside of Lakewood Amphitheatre where Biden was holding a drive-in campaign appearance in Atlanta, Georgia, USA, 27 October 2020. Georgia has become a battleground state in the upcoming 03 November presidential election.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkisstjórar eða ríkisþing geta upp á sitt einsdæmi ákveðið að skipa aðra kjörmenn en kosningaúrslit segja til um, segir stjórnmálafræðingur. Ólíklegt sé þó að það gerist. Þá sé Trump með nýlegum brottrekstrum að reyna að draga úr hömlum embættismannakerfisins.

 

Donald Trump rak í gærkvöld Chris Krebs yfirmann veföryggismála fyrir það sem hann sagði á Twitter að væru rangar fullyrðingar um að forsetakosningarnar hefðu verið öruggar. Hann hélt þar áfram órökstuddum fullyrðingum sínum um kosningasvindl. Krebs hafði í tísti í gær vísað í sérfræðinga sem sögðu ekkert athugavert við framkvæmd kosninganna. Trump er nýbúinn að reka varnarmálaráðherrann úr starfi.

Og fleiri stórar ákvarðanir voru teknar. Tilkynnt var að bandarískum hermönnum í Írak og Afganistan yrði fækkað um 3.000, þannig að 2.500 yrðu eftir í hvoru landi.

Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í stjórnmálafræði segir óvenjulegt að forseti fari í svona viðamikið verk þegar svo skammt er eftir af valdatíðinni. „En þetta er auðvitað loforð sem hann setti fram og ætlar að standa við það.“

Brottrekstrarnir gætu tengst því að hann hafi verið talinn ofan af því að ráðast á Íran fyrir skömmu. „Hann væri þá að reyna að draga úr þeim hömlum sem embættismannakerfið setur á forsetann og vald hans með því að setja fólk í embætti sem er hlynntara og hliðhollara honum.“

Á sama tíma er Trump enn að reyna að breyta úrslitum forsetakosninganna. Þau voru staðfest í Michigan í gær en framboð Trumps stendur hins vegar enn í málaferlum í Pennsylvaníu. Rudy Guiliani sagði við fjölmiðla í gærkvöld að verið væri að reka alls átta mál. Hann vísaði því á bug að tíminn væri að hlaupa frá honum.

Silja Bára segir ólíklegt að málaferlin breyti úrslitunum það mikið að sigur Joe Biden sé í hættu. Hins vegar sé möguleiki að ríkisstjórar eða ríkisþing velji aðra kjörmenn en niðurstaða forsetakosninganna segir til um. Slíkt sé ekki brot á stjórnarskránni. „Þannig að ef einhver fulltrúi stjórnvalds, hvort sem það er ríkisstjóri eða ríkisþings, telur að kosningarnar hafi ekki verið lögmætar gæti viðkomandi aðili tekið upp á því að skipa kjörmenn, staðfesta atkvæðagreiðslu þeirra kjörmanna og senda þau atkvæði til Washington.“

Þetta hefur gerst einu sinni, seint á 19. öld. Silja Bára telur ólíklegt að það gerist núna. „Öll þau viðmið og þær óformlegu reglur sem hafa verið taldar gilda um forsetaembættið, mjög margar þeirra hafa verið brotnar á síðustu fjórum árum þannig að auðvitað höfum við þennan möguleika opinn. En lýðræðið hvílir á virðingu fyrir reglunum og maður treystir því að þó að Trump sé ekki tilbúinn til að viðurkenna þær þá sé meirihluti annarra kjörinna fulltrúa tilbúinn til þess.“