Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allt að 300 þúsund bólusettir

Mynd: EPA / EPA
Gert er ráð fyrir að 5 til 600 þúsund skammtar af bóluefni gegn Covid-19 verði fluttir hingað til lands. Miðað er við að fólk fái sprautu tvisvar sem þýðir að allt að 300 þúsund manns verða bólusettir. Ekki verður lögð áhersla á að bólusetja yngra fólk. Enn er ekki ljóst hvenær bólusetningar hefjast.

Bóluefni gegn COVID-19 er beðið með óþreyju. Það er mikið undir og ljóst að efnahagshorfur landsins ráðast af því hvenær byrjað verður að bólusetja þjóðina. Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið að reglugerð um hvernig bólusetningum verður háttað og hverjir verða í forgangi til að byrja með. Þegar svínaflensan gekk yfir heimsbyggðina 2009 voru keyptir 300 þúsund skammtar af bóluefni sem áttu að duga til að bólusetja 150 þúsund manns. Gert var ráð fyrir að sprauta þyrfti tvisvar. Það reyndist óþarft vegna þess að bóluefnið var nokkuð öflugt. Þá var líka gefin út reglugerð um hverjir ættu að vera í forgangi. 

Bóluefnið barst til landsins 15. október og sama dag var byrjað að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn og svo einstaklinga með tiltekna undirliggjandi sjúkdóma. Og lögregla, björgunarsveitir, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn voru sprautaðir.

Einfalda svarið er nei!

Spurningin sem brennur nú á vörum allra er hvenær von er á bóluefni hingað til lands. Vita menn það?  Stutta svarið er nei, segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Hann segir að nokkrir lyfjaframleiðendur séu komnir mjög langt með að þróa bóluefni og tveir búnir að lýsa því yfir að þeirra efni virki vel. Áður en bóluefni komi hingað eigi þau þó eftir að fara fyrir eftirlitsstofnanir eins og til dæmis Lyfjastofnun Evrópu. Svo hefjist framleiðsla og ákvarðanir um hvernig bóluefnið deilist milli landa.

„Það á ýmislegt eftir að koma í ljós áður en dreifingin verður. Þannig að það er ómögulegt að segja hvenær bóluefnið kemur hingað til lands en auðvitað gerir maður sér vonir um að það komi einhvern tímann á fyrri parts næsta árs,“

Allt að 600 þúsund skammtar

Sumir hafa fullyrt að bólusetningar geti hafist strax í janúar en Þórólfur segir að það séu bara getgátur. Hvað er gert ráð fyrir að keyptir verði margir skammtar af bóluefni?

„ Það er gert ráð fyrir því hér að við munum kaupa á milli fimm til sex hundruð þúsund skammta. Þá gerum við ráð fyrir að tveimur sprautum á mann til að ná fullri vernd.“

Spegillinn hefur heyrt að miðað sé við að um 270 þúsund manns verði bólusettir.

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - Almannavarni
Þórólfur Guðnason

Ekki áhersla á börn

Í svínaflensunni var lögð áhersla á að bólusetja yngra fólk en börn eru ekki eins næm fyrir smiti núna vegna kórónuveirunnar. Þórólfur segir að í faraldrinum nú hafi ungt fólk ekki veikst illa.

„Þá er ekki gert ráð fyrir því að börn verði ofarlega á lista í bólusetningunni nema að þau hafi einhvern undirliggjandi áhættuþátt. Þetta er öðru vísi en þetta var í svínaflensunni og inflúensu þar sem börn eru oft aðal smitberar veikinnar. Þannig að við erum ekki að leggja áherslu á að börn verði bólusett núna,“ segir Þórólfur.

Unnið er að forgangslista um hverjir verða fyrstir til að fá bóluefni. Þórólfur segir að í þeirri vinnu sé stuðst við tillögur frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Þórólfur segir að bólusetningin þurfi ekki að taka langan tíma en það fari eftir því hve mikið og hratt bóluefni berist til landsins.

Flogið með bóluefnið hingað

Fyrirtækið Distica mun sjá um að koma bóluefninu til Íslands og dreifa því á heilsugæslustöðvar og spítala. Fyrirtækið er sérhæft í að flytja lyf. Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að aðferðin við að flytja bóluefni hingað fari eftir þeim efnum sem verða í boði.

„Það eru allt að sex lyfjaframleiðendur sem eru komnir vel á veg með þróun bóluefnis. Við höfum heyrt að eitthvað af þessum bóluefnum þarf að flytja við mínus 80 gráður og svo eru önnur sem eru bara hefðbundin, 2 til 8 gráður. Þannig að flutningurinn og flutningsumbúðirnar miðast við mismunandi hitastig. En það eru til góðar flutningsumbúðir fyrir bæði skilyrðin. Þetta verður líklega flutt til landsins í flugvélum,“ segir Júlía.