Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

37 í sóttkví á Austurlandi: Vita ekki hvaðan smitið kom

18.11.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Um 30 börn á Héraði, auk mötuneytisstarfsmanna í skólum eru í sóttkví eftir að skólabílstjóri sem ekur um sveitir greindist með COVID. Austurland er ekki lengur smitlaust en litlar líkur eru taldar á að þau hafi smitast.

Bílstjóri skólabílsins greindist með smit í gær en hann ók skólabílnum síðast á föstudag. Börn í Eiðaþinghá og Hjaltastaðarþinghá sem fóru með bílnum á fimmtudag og föstudag eru komin í sóttkví. Þau fóru  bæði í Fellaskóla og Egilsstaðaskóla og var skólahaldi aflýst í þeim báðum í dag. Í tölvupósti sem sendur var foreldrum í gærkvöldi segir að litlar líkur séu á að bílstjórinn hafi smitað börnin enda sé sóttvarna gætt við aksturinn.

Börn sem voru í bílnum, átta úr Fellaskóla og rúmlega 20 úr Egilsstaðaskóla verða í sóttkví fram á föstudag. Þá fara þau í skimun og losna úr sóttkví ef þau reynast ósmituð.

Ók líka út mat í skóla

Bílstjórinn sá líka um að keyra út mat í skóla. Maturinn er eldaður í Egilsstaðskóla og eru starfsmenn sem tóku við matnum og voru í návígi við bílstjórann komnir í úrvinnslusóttkví. Sex þeirra fóru í sýnatöku í morgun en enginn er með einkenni. 

Ótti við að smit leiki lausum hala

Samkvæmt heimildum fréttastofu var í morgun ekki ljóst hvaðan smitið kemur. Bílstjórinn hafði ekki verið á faraldsfæti, sem hefur vakið ótta við að smit gæti leynst á svæðinu.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í morgun að smitrakning gengi vel. Of snemmt sé að segja til um umfangið en það skýrist seinna í dag.

Aðgerðastjórn á Austurlandi hittist á fundi klukkan 11 og eftir fundinn fengust þær upplýsingar að 37 væru í sóttkví og að niðurstaða sýnatöku ætti að liggja fyrir síðar í dag eða í kvöld. Í ljósi þess að uppruni smitsins er enn óljós hvetur aðgerðastjórn íbúa til að fara sérstaklega varlega og gæta vel að öllum persónubundnum smitvörnum þar til mál skýrast.