Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ungur Sauðkrækingur með tugi milljóna spilana á Spotify

17.11.2020 - 21:16
Mynd: Óðinn Svan / RÚV
Nítján ára lítt þekktur Sauðkrækingur hefur á skömmum tíma komist á stall með Sigurrós og Björk á tónlistarveitunni Spotify. Vinsælustu lög hans hafa fengið tugi milljóna spilana en þau eru öll tekin upp í kjallaranum heima hjá honum.

Vinsælasta lagið með yfir 36 milljónir spilana

Ásgeir Bragi Ægisson eða Ouse eins og hann kallar sig sat við tölvuna í herberginu sínu og var að semja nýja tónlist þegar fréttastofu bar að garði. 

„Lagið mitt Lovemark fór í rosalega mikla spilun. Ég veit ekki alveg hvernig það gerðist en það gerðist bara allt í einu fyrir svona ári. Ég var löngu búinn að gefa það út svo bara allt í einu byrjaði það að verða meira og meira spilað. Og svo um áramótin síðustu gaf ég út lag sem heitir Dead Eyes sem er núna komið í 36 milljónir á Spotify,“ segir Ásgeir.

Finnst þér ekkert skrítið að sitja hérna í kjallara á Sauðárkróki og það eru 36 milljónir búnar að hlusta á eitthvað lag sem þú ert búinn að gera?

„Jú, það er pínu skrítið en ekkert rosalega því þetta er búið að gerast svo hægt og rólega og ég bara venst því alltaf jafn óðum en mér finnst það samt alveg mjög kúl.“

Nýbúinn að skrifa undir plötusamning

Hann skrifaði á dögunum undir plötusamning við útgáfufyrirtækið Twelve Tones í Bandaríkjunum. Hann segir samninginn tugmilljóna króna virði. Fyrirtækið komi til með að straum af kostnaði við tónlistarmyndbönd, tónleikaferðir og markaðssetningu. 

„Mig langar rosalega mikið til að túra í Bandaríkjunum en það er náttúrlega ekki hægt að gera það núna en það er allavega planið fyrir framtíðina en ég svo sem veit ekki meira. Ég er bara að gera þetta því ég elska að gera tónlist og þetta er vinnan mín en ég er í rauninni ekki með neitt sérstakt plan.“

Myndir þú segja að þú værir orðinn ríkur af þessu?

„Já, alveg ágætlega sko“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV