Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þriðjungur grunnskólabarna fékk sérkennslu í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Á síðasta skólaári  fengu 13.662 grunnskólabörn sérkennslu eða stuðning. Það er hátt í þriðjungur allra nemenda. Sædís Ósk Harðardóttir, formaður Félags íslenskra sérkennara, segir að ástæðan sé oftast hegðunarerfiðleikar og vanlíðan. Meðan aðgengi að sálfræðiþjónustu sé takmarkað, megi búast við að þörfin fyrir sérkennslu og stuðning í grunnskólum haldi áfram að aukast.

Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um fjölda grunnskólanemenda sem fá sérkennslu. Á síðasta skólaári voru það 35% drengja og rúm 24% stúlkna sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Fjórði og fimmti bekkur eru þær bekkjardeildir þar sem flestir fengu sérkennslu í fyrra,  hátt í 40% drengja í fjórða bekk og rúm 27% stúlkna í fimmta bekk. 

„Þetta er alveg frá því að vera með nemanda í mikilli hegðunarmótun frá því hann kemur í skólann og þangað til hann fer heim og til nemanda sem þarf að fá stuðning í stærðfræði tvo tíma í viku. Þannig að þetta er rosalega breitt svið og í rauninni ekki allt sérkennsla,“ segir Sædís.

Hún segir að mikill fjöldi barna í bekkjum auki þörf fyrir sérkennslu og stuðning. Þá verði að hafa í huga að á Íslandi séu fáir sérskólar, ólíkt nágrannalöndunum, og nemendahópurinn í almennum grunnskólum því fjölbreyttari hér en í m0rgum öðrum löndum.

„Við erum með alla flóruna í skólakerfinu hjá okkur. Og við viljum hafa það þannig en það fylgir því að við þurfum aukinn stuðning fyrir þessa nemendur. “

Sædís segir að hlutfall þeirra barna sem fá sérkennslu vegna hegðunar og vanlíðunar aukist ár frá ári. Það megi meðal annars skýra með löngum biðlistum eftir sálfræðiaðstoð. „Hegðun er orðinn töluvert stór þáttur í þessu. Hegðun og líðan. Það hefur aukist. Það vantar svo ofboðslega sálfræðistuðning fyrir þessa nemendur. Það eru miklir biðlistar bæði inn á Greiningarstöðina, Þroska- og hegðunarstöðina og BUGL og skortur á sálfræðiþjónustu fyrir börn.“