Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þarf að skoða Arnarholt og fleiri staði í þaula

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Mikilvægt er að komast til botns í hvað gerðist í Arnarholti og víðar, segir heilbrigðisráðherra. Frásagnir af þeirri meðferð sem vistmenn í Arnarholti sættu séu hræðilegar og átakanlegar. Ráðherra segist ætla að beita sér eins og henni sé unnt til að allt verði dregið fram í dagsljósið. 

Vika er síðan fréttastofa RÚV greindi frá sláandi frásögnum starfsfólks um illa meðferð sem vistmenn í Arnarholti sættu. Þar bjó fólk sem glímdi við andleg eða líkamleg veikindi.

„Þessar frásagnir eru náttúrulega bara hræðilegar og þetta eru átakanlegar reynslusögur sem maður sér þarna. Ég held að það sé afar mikilvægt eins og bæði borgarstjóri og forsætisráðherra hafa bent á að það verður og það er bara mjög mikilvægt að komast til botns í því hvað þarna gerðist,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Reykjavíkurborg rak heimilið Arnarholt. Bráðabirgðaniðurstaða borgarlögmanns er sú að hugsanlega þurfi Alþingi að skipa rannsóknarnefnd um málið sem hefði víðtækari heimildir til að skoða gögn sem njóta verndar.
Geðhjálp og Þroskahjálp hafa farið fram á við Alþingi að fram fari rannsókn, áttatíu ár aftur í tímann, á vistheimilum þar sem fullorðið fólk var vistað.

Finnst þér það koma til greina?

„Ja, það sem þarf til þess að komast til botns í því, ekki bara því sem gerðist þarna heldur auðvitað líka víðar. Það hafa verið gerðar úttektir á ýmiss konar starfsemi sérstaklega vistheimilum barna, Breiðuvík og fleiri stöðum. Við höfum alltaf haft gott af því að fara í saumana á málum sem þessum og við eigum að halda því áfram,“ segir Svandís.

Ráðherra segir að málefni Arnarholts hafi ekki komið inn á hennar borð. Munt þú á einhvern hátt beita þér í þessu máli?

„Bara eins og ég get beitt mér fyrir því að allt komi frami í dagsljósið. Ég held að það sé markmið samfélagsins í þessu eins og öðrum málum sem hafa legið í þagnargildi árum og áratugum saman og hafa sært fólk og jafnvel fyrir lífstíð,“ segir Svandís.

Þannig að þú styður það að stjórnvöld fari bara í einhverja allsherjar úttekt hvernig þessum málum var háttað síðustu áratugi?

„Ég hef ekki sett mig nákvæmlega inn í það hvernig því er fyrir komið en ég auðvitað bara stend með því að málin verði rannsökuð og skoðuð í þaula,“ segir Svandís.