
Tafir á viðræðum við ESB tefja dreifingu bóluefnis
Evrópusambandið hefur átt í viðræðum við Moderna síðan í júlí um kaup á 80 milljón skömmtum af bóluefninu og AFP fréttastofan hefur eftir Stephane Bancel, forstjóra lyfjafyrirtækisins, að tafir á viðræðunum dragi ekki úr því magni sem Evrópuríkin fá en hægi hins vegar á dreifingunni.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú þegar tryggt sér 100 milljón skammta af bóluefninu og nokkrar milljónir skammta verða að öllum líkindum fluttar þangað til lands strax í desember. Þá hefur Moderna gegnið frá samningum við Kanada, Japan, Ísrael, Katar og Bretland.
Í samtali við AFP fréttastofuna segir forstjórinn að fjöldi þeirra ríkja sem komi að viðræðunum við ESB hafi sett strik í reikninginn og að ef fram haldi sem horfi verði Evrópuríkin ekki fyrst til að fá bóluefnið. „Við getum ekki sent efnið til ríkja sem hafa ekki pantað það,“ segir hann. Bandaríkjamenn hafi gengið mun harðar fram og greitt fyrirtækinu fyrirfram til að fjármagna tilraunir, en að engin slík greiðsla hafi komið frá Evrópusambandinu.