Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sigur Rós ásamt gestum og Auður með nýtt efni

Mynd: Kynningarefni / Sigur Rós

Sigur Rós ásamt gestum og Auður með nýtt efni

17.11.2020 - 16:10

Höfundar

Það er alltaf eitthvað ferskt að finna í Undiröldunni enda íslenskt tónlistarfólk duglegt að senda frá sér nýtt efni. Að þessu sinni er það áður óútgefið lag af nýrri tónleikaplötu Sigur Rósar, fyrsti söngull af væntanlegri plötu Auðar og auk þess nýtt efni frá Bony Man, Valgeiri Guðjóns og Vigdísi Völu Valgeirsdóttur, Ara Árelíusi og að lokum samstarf Dodda og Aldísar.

Auður - Fljúgðu burt dúfa

Fljúgðu burt dúfa kom út á föstudaginn og Auður spilaði það á Iceland Airwaves á föstudagskvöld. Lagið er mínimalískt og strípað með eingöngu píanói og rödd. Það er fyrsta lagið sem hann gefur út af plötu sem hann stefnir á að gefa út á næsta ári.


Sigur Rós - Dvergmál

Það er þónokkur tími liðinn frá því að hljómsveitin Sigur Rós gaf út plötuna Kveik þó að hljómsveitin hafi verið að fikta við ýmislegt annað í millitíðinni. Nú sendir sveitin frá sér tónleikaplötuna Hrafnagaldur Óðins sem var tekin upp árið 2002 og inniheldur lagið Dvergmál þar sem Sigur Rós nýtur liðsinnis Steindórs Andersen, Hilmars Arnar Hilmarssonar og Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttur.


Bony Man - The Bottom

The Bottom er annar söngull af væntanlegri plötu Guðlaugs Jóns Árnasonar sem kallar sig Bony Man. Lagið er dramatískt um lífið og dauðann. Með Bony Man í laginu eru Arnar Guðjónsson á trommur, rafmagnsgítar, píanó, hljómborð og bassa, Björk Óskarsdóttir á fiðlu og Unnur Jónsdóttir á selló.


Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir - Hraun í Öxnadal

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í gær, 16. nóvember og í tilefni af því sendu Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir frá sér lagið Hraun í Öxnadal sem er við texta Hannesar Hatstein um skáldið Jónas Hallgrímsson.


Ari Árelíus - Sný upp á tímann

Ari Árelíus er nafn tónlistarmannsins Ara Franks Ingusonar sem gaf út þröngskífuna Emperor Nothing árið 2018 og hefur verið iðinn við að senda frá sér smáskífur síðan. Nýja lagið hans Sný upp á tímann kemur síðan út á helstu streymisveitum þann 19. nóvember.


Doddi ft Aldís - Game of Love

Lagið Game of Love er fimmti söngull sem Þórður Helgi Þórðarson sendir frá sér undir listamannsnafninu Doddi en von er á stórri plötu frá honum sem hefur fengið nafnið Last. Í myndbandinu sem hann tók á símann sinn koma fram samstarfskona hans í laginu Aldís og heimilisdýrin Bruno og Lilli sem leika annars vegar hund og hins vegar kött.