Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir hugsanlegt að Alþingi verði að rannsaka Arnarholt

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Hugsanlegt er að Alþingi þurfi að skipa formlega rannsóknarnefnd sem hefði víðtækari heimildir en nefndir á vegum Reykjavíkurborgar, til þess að skoða málefni Arnarholts. Þetta er bráðabirgðaniðurstaða borgarlögmanns, sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá á fundi borgarstjórnar í dag. Dagur sagði að slík nefnd fengi væntanlega víðtækara hlutverk en að skoða einungis málefni Arnarholts.

Málefni Arnarholts voru til umfjöllunar á fundi borgarstjórnar í dag. Í óundirbúnum fyrirspurnum spurði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, Dag B. Eggertsson borgarstjóra hvar málið væri statt. Fyrirspurn Heiðu Bjargar var svohljóðandi:

„Í fréttum RÚV í síðustu viku fengum við að heyra skelfilegar lýsingar starfsfólks sem starfaði á Arnarholti, af aðbúnaði og framkomu við vistmenn þar til ársins 1971. Þetta voru hræðilegar frásagnir og ég veit að þið hafið öll orðið vör við þetta. Og þetta lætur engan ósnortinn. Borgarstjórn ákvað 1971 að grípa til aðgerða þrátt fyrir að nefnd sem fjallaði um málið hefði ekki lagt það til. Borgarstjóri hefur nefnt það í fréttum að það sé ljóst að það þurfi að fara yfir þessi gögn sem eru til um Arnarholt og aðbúnað þar, og rannsaka það og jafnvel rannsaka fleiri heimili sem borgin bar ábyrgð á á þessum tíma. Og mig langaði að spyrja borgarstjóra hvar málið er statt og hvaða skref hann sér fyrir sér sem næstu skref í þessu máli,“ sagði Heiða Björg.

Nauðsynlegt að bregðast við

„Allir sem sáu þessa umfjöllun og fréttir hljóta að geta verið sammála um að þetta voru skelfilegar lýsingar og nístandi. Og mér finnst augljóst að borgin þurfi að bregðast við,“ sagði Dagur í svari sínu.

Þá sagði hann að Borgarskjalasafn hefði ákveðið að veita aðgang að þeim skjölum sem til væru í safninu, og varða Arnarholt. Sum þeirra, svo sem sjúkragögn, væru hins vegar þess eðlis að þau nytu ákveðinnar verndar, meðal annars vegna persónuverndar.

„Og þar kemur að hinum þætti málsins, sem fyrirspyrjandi nefnir; hvaða úttekt er rétt að gera og hægt að gera. Og ég tel að það þurfi að fara ofan í þetta mál og hugsanlega önnur sambærileg. En bráðabirgðaniðurstaða borgarlögmanns er sú að það getur verið að það þurfi að koma til kasta Alþingis í því, sem setji á stofn formlega rannsóknarnefnd sem hefur ríkari heimildir til þess að fá aðgang að trúnaðargögnum heldur en nokkur sú nefnd eða vettvangur sem Reykjavíkurborg eða borgarráð eða borgarstjórn myndu setja á stofn,“ sagði Dagur.

„Ég vonast til þess að þetta muni skýrast í minnisblaði sem borgarlögmaður er að taka saman og við fengjum þá til umfjöllunar í borgarráði á fimmtudag. En ég tek fram að ég hef góðar vonir um samstarf við bæði Forsætisráðuneytið, og við höfum verið í sambandi við forsætisráðherra út af þessu, og eftir atvikum Alþingi, sem er með málið til umfjöllunar, ef til þess kemur að það þurfi atbeina Alþingis við að setja á stofn nefnd sem myndi þá væntanlega eða hugsanlega fá víðtækara hlutverk heldur en bara að skoða málefni Arnarholts,“ sagði Dagur.