Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ríkissjóður hefði getað beitt sér af tvöföldum krafti“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, segir að ríkissjóður hefði getað beitt sér af tvöfalt meiri krafti en hann gerði við að stýra fjármagni inn í það gat sem myndast hefur á efnahagsreikningi þjóðarinnar vegna áhrifa COVID-19. Það hefði mátt gera án þess að skapa meiri þenslu en þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í. Þetta kemur fram í grein Kristrúnar í nýjasta tímariti Vísbendingar.

Kristrún færir rök fyrir því að viðbótarpeningamagn í umferð hafi að mestu verið varið í stóraukin húsnæðislán til vel stæðra heimila en síður nýst til að verja grunnþarfir fólks og viðhalda framleiðslu- og þjónustugetu fyrirtækja. Hún bendir á að nærri 300 ma. kr. hafi bæst við peningamagnið á síðustu mánuðum um leið og landsframleiðslan hafi dregist saman.

„Þetta er ígildi 300 milljarða króna peningaprentunar,“ skrifar hún og að lykilatriðið hljóti að vera að peningamagninu sé varið á hagvaxtarhvetjandi hátt. Um 200 milljarðar hafi farið í ný útlán til heimila frá því að faraldurinn hófst og veltir Kristrún því upp hvort slík aukning á húsnæðisskuldum sé góð nýting á fjámagni. Stærstur hluti renni til fólks sem samkvæmt Fjármálastöðugleikahefti Seðlabankans standi betur en meðalmaðurinn í lánasafni bankanna. Hægt hefði verið að nýta þetta svigrúm betur að mati Kristrúnar, til að fyrirbyggja rýrnun mannauðs og framleiðsluþátta ef ríkisfjármálin hefðu leikið stærra hlutverk. Í staðinn hafi „dýrmætu svigrúmi peningaprentunar“ verið sóað.