Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óljóst með skipulag skólastarfs á morgun

Mynd: Alma Ómarsdóttir / RÚV
Reglugerð um hvernig haga skuli takmörkunum í skóla- og íþróttastarfi barna var birt fyrir fáum klukkustundum. Því hefur ekki náðst að skipuleggja hvernig því verður nákvæmlega háttað á morgun. Íþróttafélög eru tilbúin að taka á móti börnum á æfingar þrátt fyrir óvissuna. Von er á tillögum forsætisráðherra um fyrirkomulag á landamærum á föstudaginn. 

COVID-sjúklingum fækkar á Landspítala

Sjö smit greindust innanlands í gær; fimm á höfuðborgarsvæðinu og tvö á Norðurlandi eystra. Aðeins einn sem greindist var utan sóttkvíar. Nú eru í landinu 302 kórónuveirusmitaðir og í einangrun. Einn er á Sjúkrahúsinu á Akureyri á gjörgæslu. Sautján eru með virkt covid smit á Landspítala, þar af þrír á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. 37 inniliggjandi sjúklingar luku einangrun síðasta á síðasta sólarhring. 

Reglugerðin kom seint - vitum ekki hvað við eigum að gera

En það er á morgun sem nýjar tilslakanir taka gildi. 

„Það eru ekki öll kurl komin til grafar í því hvað við megum nákvæmlega gera,“ segir Hákon Sverrisson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Það er alveg klárt mál að það eru fleiri en yfirknattspyrnuþjálfari stærsta íþróttafélags landsins sem eru óvissir með það hvernig reglurnar verða nákvæmlega á morgun. Reglugerðin kom upp úr klukkan fjögur í dag, segir Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, og því er skipulagið enn á mótast og kemst í eðlilegt horf á næstu dögum, segir hann. Skólarnir munu leysa málin á ólíkan hátt og ekki er enn komið á hreint með skólasundið. Í Fífunni í Kópavogi verður tekið á móti krökkununum á morgun.

„Við ætlum að hólfaskipta þannig að við náum að halda skólakrökkunum saman í hópum þ.a. það sé bara einni skóli saman á hverju svæði fyrir sig, mesta lagi þá tveir skólar sem blandast þá að einhverju leyti saman.“

En heldurðu að það sé tilhlökkun í krökkunum að fá að komast á æfingasvæðið loksins?

„Já, það verður bara frábært að sjálfsögðu fyrir krakkana það er loksins kominn tími til,“ segir Hákon.

Fjöldatakmarkanir frá morgundeginum verða miðaðar við 50 í leikskólum, 25 til 50 í grunnskólum, 25 í framhaldsskólum og tíu í háskólum. Íþróttastarf barna, sem fædd eru 2004 eða síðar, er heimilt bæði úti og inni. Ökukennsla er leyfileyft og starfsemi sem krefst nándar er heimil. 

Nýjar landamærareglur kynntar á föstudag

Sýnataka á landamærum verður ókeypis í desember og frekari tíðinda er að vænta: 

„Ég mun koma með tillögu hér inn á föstudaginn um framhaldið og það hangir saman við margt annað. Eitt af því sem við höfum þegar tekið ákvörðun um að við munum fella gjaldtöku fyrir skimanir á landamærum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Heilbrigðisráðherra ákvað þetta í samræmi við tillögu sóttvarnalælknis. Markmiðið er að hvetja fólk til að fara í sýnatöku fremur en í 14 daga sóttkví til að draga úr líkum á því að smit berist til landsins. Tæp þrjú prósent þeirra farþega sem hingað hafa komið hafa valið langa sóttkví. 

„Síðan eigum við von á gagnkvæmri viðrukenningu vottorða. Fyrstu tíðindi af því eiga að berast í vikunni þannig að ég vænti þess að á föstudaginn muni liggja fyrir hvert framhaldið verður og hver verða næstu skref.“

Forsætisráðherra segir að það sjáist á fækkun smita undanfarið að þetta sé á réttri leið: 

„En ég held hins vegar ekki að hér verði búið að aflétta öllum sóttvarnaráðstöfunum. Það er ekki svoleiðis og við megum eiga von á að þær verði áfram lýði. Þannig að ég er að vonast til þess að við fáum að sjáum ákveðið hlé í faraldrinum og að við getum átt góða aðventu en hún verður ekki eins og hefðbundin aðventa.“