Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Neyðarástand yfirvofandi í Eþíópíu

Átök geisa milli stjórnarhers Eþíópíu og skæruliðasveita sem hliðhollar eru héraðsstjórninni í Tigray-héraði, nyrsta héraði Eþíópíu.
Höfuðborgarbúar í Addis Abeba gegna kalli um blóðgjöf vegna átakanna í Tigray-héraði Mynd: AP
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna varaði við því í dag að mannúðarkrísa væri yfirvofandi í Eþíópíu. 27.000 manns hafa síðustu daga flúið stríðsátök í Tigray-héraði og haldið til nágrannaríkisins Súdans. Ekki hafa svo margir flóttamenn komið þangað í tvo áratugi.

Mikil neyð ríkir í Tigray-héraði í Eþíópíu þar sem bardagar hafa geisað í tvær vikur. Stjórnarher Eþíópíu og Þjóðfrelsishreyfingin í Tigray-héraði hafa barist um yfirráð svæðisins síðan í byrjun mánaðar. Forsætisráðherra landsins tilkynnti í dag að lokafrestur hreyfingarinnar til að gefast upp væri liðinn. Í gær gerði stjórnarherinn loftárásir á héraðið. Hundruð hafa farist í bardögunum og 27.000 manns hafa flúið til nágrannaríkisins Súdans. Fjöldi fólks er einnig á flótta innan Eþíópíu. 

Nokkur þúsund manns hafa farið yfir landamæri Eþíópíu að Súdan síðustu daga, að þvi er segir í tilkynningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Fólk gengur langar leiðir og er örmagna þegar það kemur á leiðarenda. Hjálparsamtök hafa gefið fólki teppi og dýnur til að sofa á. 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna varaði við því í dag að í uppsiglingu væri mannúðarkrísa og hvatti stríðandi fylkingar til friðarviðræðna. 

Þjóðfrelsishreyfingin sakar stjórnarherinn um að skjóta flaugum frá nágrannaríkinu Erítreu og hefur því varpað sprengjum þangað.